Hópuppsagnir

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 17:07:14 (1182)


[17:07]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Ekki átti ég á því von að hv. þm. Kristín Einarsdóttir lægi mér á hálsi fyrir það að ég væri ekki nógu gráðugur að taka við tilskipunum frá Brussel og mér finnst skjóta nokkuð skökku við þegar þessi hv. þm. er orðinn sérstakur talsmaður þess að fara að taka upp vitleysuna frá Brussel. En ég held að það gildi það sama um fjöldamargar af þessum tilskipunum, sumar eru meinlausar, sumar eru gagnslausar og sumar eru algerlega óþarfar og tóm vitleysa að vera að eyða tímanum í að lögfesta og okkur mundi aldrei detta í hug að lögfesta ef við værum ekki til þess neydd.
    Það vill svo til að ég hef lesið þessa tilskipun og kynnt mér efni hennar dálítið, en ég tel að það geti sem hægast staðið þannig á að menn þurfi að vinna, og fjöldamargir í þjóðfélaginu þurfi að vinna, meira en 48 stundir til jafnaðar á viku. Í þeim starfsgreinum sem ég þekki best til þá er altítt að menn vinni meira en 48 stundir á viku árið út.