Lyfjalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 17:08:40 (1183)

[17:08]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, til staðfestingar á bráðabirgðalögum sem samþykkt voru 28. júní 1994 og tóku gildi 1. júlí sl.
    Lyfjalög, nr. 93/1994, tóku gildi 1. júlí sl. eins og sagt var. Alþingi ákvað þó að fresta gildistöku ákvæða hinna nýju lyfjalaga er varðar nýjar úthlutunarreglur lyfsöluleyfa og nýjar verðlagsreglur til 1. nóv. 1995. Við lögfræðilega úrvinnslu frv. í nefnd rétt fyrir þinglok láðist hins vegar að framlengja samsvarandi ákvæðum eldri laga þangað til nýjar reglur taka gildi. Voru því sett bráðabirgðalög 28. júní um breytingu á lyfjalögum um að ákvæði eldri laga um lyfsöluleyfi og verðlagningu lyfja gildi áfram til 1. nóv. 1995, enda mun það ótvírætt hafa verið vilji löggjafans þó það hafi láðst að setja það fram í lagatexta.
    Ég hef hér gert grein fyrir frv. þessu, virðulegi forseti, og leyfi mér að leggja til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.