Lyfjalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 17:24:13 (1186)


[17:24]
     Kristín Einarsdóttir :
    Herra forseti. Það þarf út af fyrir sig ekki að hafa mörg orð um efni þessa frv. þar sem það er nokkuð einfalt og eðlilegt að það þurfi að setja slík ákvæði í lög. Það sem ég vil gera athugasemd við er að það hafi þurft að setja bráðabirgðalög um breytingar á lyfjalögum. Ég vil minna á það að kvennalistakonur hafa viljað fella úr gildi heimild til að setja bráðabirgðalög. Ég tel að þarna sé farið ákaflega frjálslega með bráðabirgðalagaheimildina. Þó að vissulega megi segja að nauðsynlegt hafi verið að breyta lögum þá tel ég alls

ekki afsakanlegt að setja bráðabirgðalög um ákvæði sem þetta.
    Það er heldur ekki nógu gott og raunar verður að segjast mjög slæmt að svo mikill flumbrugangur sé við lagasetningu og svo lítill tími gefinn á þingi að það skuli falla út ákvæði sem þetta þegar verið er að setja lög eins og gerðist á síðasta þingi. Hv. 11. þm. Reykv. hefur lýst þeim ágreiningi sem varð hér og sem er kannski orsökin fyrir því að þetta varð niðurstaðan á síðasta þingi, þ.e. að það var verið að fella út úr frv. ákveðin ákvæði og þar með hefur þetta fallið til hliðar. Þetta er óafsakanlegt en hefði verið í lófa lagið að kalla saman þingið þótt það sé mjög kostnaðarsamt og erfitt að gera það á sumartíma. Ef svo brýna nauðsyn bar til að setja lög þá hefði þingið átt að koma saman og taka þeim afleiðingum að svona illa hafi verið að málum staðið. Ég tel að það verði þingið að taka á sig ef ekki er hægt að gera þetta betur. Ég verð fyrst og fremst að kenna því um að fram á síðustu stundu var ósveigjanleiki af hálfu stuðningsmanna stjórnarinnar við að sætta sig við það að ekki næðust fram þau ákvæði laganna á síðasta þingi sem þeir vildu ná fram. Ég tel það vera vinnubrögð sem ekki er hægt að líða að þrýsta fyrst einhverju hér í gegn með ýmsum göllum og laga svo bara með bráðabirgðalögum á eftir. Það er fyrst og fremst það, virðulegi forseti, sem ég geri athugasemd við varðandi þetta frv.
    Varðandi það sem hefur verið rætt um dýralækna þá tel ég að það verði að taka til athugunar innan nefndarinnar. Ég lét mér jafnvel detta í hug að það væri möguleiki að taka það frv. sem hefur verið gert að umtalsefni og afgreiða það samhliða þessu. Ég veit ekki hvort það er möguleiki en ég læt mér detta í hug að nefndin gæti gert það. Ég á að vísu ekki sæti í þeirri hv. nefnd sem fær þetta til meðferðar þannig að ég get ekki komið að þessu máli í nefnd en ég veit að hér er alla vega einn nefndarmaður og kem ég þessu á framfæri. Það er svo mikill galli við núgildandi ástand að það er nánast ekki hægt að búa við það öllu lengur. Ég vil einnig beina því til hæstv. ráðherra hvort hann sjái einhverja meinbugi á því að það verði gert. En í fljótu bragði get ég ekki séð að það ætti að vera neitt því til fyrirstöðu.