Lyfjalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 17:28:30 (1187)


[17:28]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Menn geta að sjálfsögðu haft þá skoðun að bráðabirgðalagavald eigi ekki að vera til, þ.e. að ráðherrar eigi ekki að geta sett bráðabirgðalög. Ég hef verið þeirrar skoðunar sjálfur. En við verðum auðvitað að búa við þann lagaramma sem Alþingi hefur sett og sá lagarammi gerir ráð fyrir því að bráðabirgðalagavaldið sé til og það sé notað við tiltekin skilyrði. Við getum því ekki rætt þetta mál eins og ákvörðun hafi verið tekin um að bráðabirgðalög skuli ekki sett. Þvert á móti hefur ákvörðun verið tekin af meiri hluta þingsins um að bráðabirgðalög skuli sett. Alþingi hefur tekið ákvörðun um þetta.
    Þá er spurning hvað hefði gerst ef hæstv. heilbrrh. hefði ekki notað þetta bráðabirgðalagavald. Þá hefði það einfaldlega gerst að það hefði skapast algert kaos vegna þess að þá voru allar reglur um verðlagningu lyfja felldar úr gildi og lyfjaverð í landinu hefði þá verið frjálst án nokkurra ákvæða um verðlagningu. Það hefði líka gerst að öll ákvæði laga um rekstur og stofnun lyfjabúða hefðu fallið úr gildi þannig að hverjum sem er hefði verið heimilt að opna lyfjabúð þar til Alþingi hefði komið saman og getað breytt því. Þá hefði að sjálfsögðu ekki verið hægt að svipta þá einstaklinga sem hefðu verið búnir að opna slíkar verslanir peningum sínum. Ég bið því hv. þm. að hugleiða hvernig ástandið hefði orðið ef hæstv. fyrrv. ráðherra hefði ekki gripið til þess úrræðis að beita bráðabirgðalagavaldinu í samráði við þingflokka. Ef einhvern tíma er ástæða til að beita bráðabirgðalagavaldi sem er til þá er það í slíkum tilfellum eins og þessum.
    Ég ítreka það, virðulegi forseti, að það er fyllilega réttmætt að ræða hvort það sé eðlilegt að bráðabirgðalagavald eigi heima í okkar löggjöf, en við getum að sjálfsögðu ekki stungið höfðinu í sandinn og látið eins og það vald sé ekki til og þingið ætlist ekki til þess að það sé notað. Með lagasetningu um að bráðabirgðalagavaldið skuli vera til er þingið að

ætlast til að það verði notað og þá fyrst og fremst við aðstæður eins og þær sem ég hef verið að lýsa.
    Þá hefur verið spurt um ákvæði gildandi laga um dýralækna. Ég tel afskaplega óæskilegt að læknir, hvort sem það er dýralæknir eða annar, hafi fjárhagslega hagsmuni af lyfsölu jafnframt sínu læknisstarfi, þ.e. að hann bæði sjái um að gefa út lyfjaávísanir og afgreiði þær svo sjálfur á eigin vegum og sé þannig bæði með lyfsölu og ávísun á lyf. Það er ekki æskilegt fyrirkomulag hvort sem um er að ræða dýralækna eða almenna lækna. Á móti kemur svo það sem hefur verið bent á að nauðsynlegt sé að dýralæknar eins og almennir læknar gera geti haft með sér nauðsynlegustu lyf í tösku sinni til þess að gefa við vitjun og þá þannig að hægt sé að nota þau lyf við nauðsynlegustu aðgerðir. Þó þannig að meginlyfjasalan fari fram eins og lyfjasala vegna mannlegra sjúkdóma, þ.e. hjá lyfsala, þannig að engin hætta sé á því að menn séu að blanda saman hagsmunum læknis og hagsmunum lyfsala í einum og sama manninum.
    Hæstv. fyrrv. heilbrrh. taldi sig hafa gengið frá því í lögum að þessa þjónustu væri hægt að veita. Auðvitað er það hagsmunamál fyrir dýralækna að hafa sem allra mest af lyfsölunni sjálfir með höndum því að það er fjárhagslegt hagræði fyrir þá. Af einhverjum ástæðum hafa þeir ákveðið að túlka lögin miklu þrengra en heilbrrn. og Alþingi ætluðust til þannig að þeir telja sig ekki hafa heimild til að veita þá þjónustu sem menn gerðu ráð fyrir að þeir gætu veitt á grundvelli laganna.
    Þá þarf að sjálfsögðu að taka af öll tvímæli um þetta. Um það hafa verið viðræður á milli heilbrrn. og landbrn. Það hefur náðst niðurstaða sem báðir aðilar eru sáttir við, bæði yfirdýralæknir og heilbrrn., og byggist á því að dýralæknar geti sinnt sjúklingum sínum með eðlilegum hætti og bændur þurfi ekki að verða fyrir óeðlilegum eða óæskilegum töfum á lyfjaafgreiðslu að þurfa að hafa meira fyrir því en eðlilegt mætti teljast án þess þó að fjárhagslegum hagsmunum lyfsölunnar verði um of blandað saman við dýralæknisstarfið.
    Ég hef rætt þessi mál við hv. formann heilbr.- og trn. og mér er ljóst að hann er mikill áhugamaður um það að þessi mál verði afgreidd sem allra fyrst og mun sjálfsagt gera sitt til þess að hægt verði að afgreiða þau mál um leið og þetta bráðabirgðalagafrv. er tekið til afgreiðslu en það verður að afgreiða um miðja næstu viku til þess að bráðabirgðalagasetningin standist. Ég ítreka að það er komið fullt samkomulag á milli dýralæknisembættisins og landbrn. og heilbrrn. um hvað gera skuli til þess að tryggja þá þætti sem ég hef þegar minnst á. En það er auðvitað heilbr.- og trn. og Alþingi sem hafa síðasta orðið um málið.
    Í þriðja lagi var spurt um hvort það væri fyrirætlun ríkisstjórnarinnar að leita eftir samþykki Alþingis við að flýta gildistöku verðlagsákvæða lyfsölulaganna og annarra ákvæða þeirra sem frestað hafði verið á Alþingi sl. vetur. Því er til að svara að um það er samkomulag í ríkisstjórninni, að leggja slíkt til við Alþingi og það verður gert á næstu dögum og um það er full samstaða í ríkisstjórninni milli stjórnarflokkanna. En það er auðvitað með það eins og önnur lagafrumvörp sem fyrir Alþingi eru lögð að það er að sjálfsögðu þingið sem ræður, hvort þingið samþykkir þá tillögu eða breytir henni eða samþykkir hana ekki. Verði hún ekki samþykkt þá segir það sig sjálft að ákveðnar forsendur undir lækkun lyfjaútgjalda í fjárlögum munu ekki standast þannig að Alþingi þarf þá að búa sig undir að gera ráð fyrir meiri fjárveitingum vegna lyfjamála og lyfjakaupa hjá Tryggingastofnun ríkisins. En það verður þá að fara saman afgreiðsla annars vegar á tillögu ríkisstjórnarinnar um að flýta gildistökunni og afgreiðsla á fjárlögum að þessu leytinu til.