Lyfjalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 17:36:48 (1188)


[17:36]
     Kristín Einarsdóttir :
    Herra forseti. Þetta verður bara örstutt. Það er í tilefni af ræðu hæstv. ráðherra. Ég get verið algerlega sammála honum varðandi dýralækna. Það sem ég er aðallega að tala

um er að það þurfi að taka á því máli og ég er ekki að segja að það sé endilega einhver ein lausn heldur að það sé með þeim hætti eins og virðist vera að bæði Alþingi og væntanlega ráðuneytið hafi túlkað, þ.e. að dýralæknir geti verið með lyf og selt þau að ákveðnu marki. Það er aðalatriðið að taka á málinu og mér heyrist það eiga að gera og það er vel. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það.
    En varðandi bráðabirgðalagavaldið sem ég og hæstv. ráðherra virðumst vera sammála um að ætti e.t.v. að afnema. Ég skildi hann svo að hann væri sammála mér í því að það þyrfti að afnema þá heimild. Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að bæði er þetta í lögum og ekki bara það heldur hefur þetta verið notað ótæpilega af ríkisstjórnum undanfarinna ára, ekki bara í eins saklausu máli eins og hér er. Ég tók fram að það var nauðsynlegt að setja ákvæði eins og þetta í lög og ég hélt að ég hefði sagt það mjög skýrt þegar ég talaði hér áðan og það þarf ekkert að vera að skýra það út fyrir mér hvað hefði gerst. Það stendur meira að segja hérna í sjálfri greininni þannig að það þarf ekki að tíunda það sérstaklega. Ég sagði það einnig að þegar Alþingi gerir mistök eins og þessi þá finnist mér eðlilegt að Alþingi komi saman og leiðrétti, það var það sem ég sagði. Þannig að ég var ekki að mæla með því að þetta væri í neinu uppnámi, eins og mér fannst hæstv. ráðherra ýja að eða raunverulega segja að ég hefði sagt. Ég sagði það aldrei. Ég tel að þegar Alþingi gerir mistök eins og þessi þá eigi Alþingi að koma saman og leiðrétta þau mistök og það eigi ekki að setja bráðabirgðalög með þeim hætti sem hér er gert og reyndar ekki bara þetta heldur oft og reyndar allt of oft og oft með slæmum afleiðingum. Þetta hafði ekki nema bara gott í för með sér í sjálfu sér. Þannig að ég er ekki efnislega á móti þessu frv. heldur eingöngu aðferðinni. Ég kem hér ekki síst til að leggja áherslu á það að ég tel að það eigi að afnema þessi ákvæði og að Alþingi eigi að koma saman ef nauðsyn er á lagasetningu. Ég bendi á að t.d. í Danmörku, þar sem slíkt ákvæði er, held ég, enn inni í stjórnarskránni, þá er bráðabirgðalagaákvæði aldrei notað. Meira að segja þegar mistök eins og þessi verða þá kemur þingið saman til þess að laga og breyta og það er kannski fyrst og fremst það sem ég er að leggja áherslu á, alls ekki það að ég hafi talið að í sjálfu sér hafi verið óþarfi að setja lög eins og hér var gert í sumar.