Lyfjalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 17:40:30 (1189)


[17:40]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. heilbr.- og trmrh. að það var alveg nauðsynlegt, því miður, að setja þessi bráðabirgðalög því að það er hárrétt, eins og hæstv. ráðherra lýsti hér áðan, að hér hefði orðið algert neyðarástand, bæði varðandi verðlagninguna og eins varðandi dreifingu lyfja, þ.e. menn hefðu getað sett hér upp lyfjaverslanir og þá hefði auðvitað ábyrgð ríkisvaldsins verið mikil í þeim efnum hefðu menn komið til þess síðar meir að loka þeim.
    Ég tek einnig undir það með hæstv. ráðherra að það er erfitt og mjög óæskilegt að sameina í einum og sama manninum bæði lyfsalann og svo þann sem er læknirinn sem er að ávísa á eigin apótek. Það er hins vegar alveg ljóst að a.m.k. sá lagatexti sem nú liggur fyrir í hv. heilbr.- og trn. tekur ekki af nein tvímæli í því hvort dýralæknar hafi leyfi til að selja eða afhenda lyf og hvort það séu bráðnauðsynleg lyf eða hvort þeir geti rekið sín apótek áfram eins og til er í nokkrum tilfellum. Og ég vara við því að menn fari nú í að hnoða saman einhverjum lagatexta sem menn telja sig vera sammála um, en eru í raun og veru alls ekki sammála um og ætla að nota þannig að menn geti túlkað á mismunandi vegu. Mér finnst nefnilega vera komið nóg af þessu klúðri í tengslum og í kringum þessi lög um lyfjamál þó við höldum ekki áfram á þeirri braut.
    Ég hef það á tilfinningunni bæði eftir að hafa hlustað á formann Dýralæknafélagsins, yfirdýralækni og einnig fulltrúa heilbr.- og trmrn. á fundum í hv. heilbr.- og trn. að menn vilji dálítið túlka þetta eins og þeim láti best hverju sinni og verði það niðurstaðan þá er verr farið af stað en heima setið. Þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra hvort mikil hætta væri á, þegar ekki eru meiri fjárhagslegir hagsmunir í húfi en svo að um 150 millj.

kr. er að ræða og helmingurinn af því væru lausasölulyf, hvort ekki mætti hugsanlega setja þetta undir lyfjaverðsnefnd, sem hefði þá möguleika á því að fylgjast mjög náið með tekjuþróun dýralækna sem ekki eru mjög margir. Því ef sá texti, eins og hann nú er kynntur í hv. heilbr.- og trn., gengur fram, þá er alveg ljóst að dýralæknar ætla sér áfram að geta selt dýralyf og þeir ætla sér líka, eftir að frjálsræði hefur verið gefið á lausasölulyfin, að ákveða verðið á þeim sjálfir. Þannig að þeir geta þá látið þá sem þurfa að kaupa bera kostnaðinn og um leið Tryggingastofnun ríkisins. Það er þetta sem ég vil vara við og menn þurfa mjög að gæta að þegar frá þessu verður gengið. En ég held að það sé nauðsynlegt að menn gangi frá því í næstu viku að fá þessi bráðabirgðalög samþykkt hér í þinginu í þeim tilgangi fyrst og fremst að tryggja lagagrundvöllinn fyrir þeim.