Sala ríkisvíxla og fjármögnun ríkissjóðs

26. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:28:15 (1203)



[15:28]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Kannski væri ekkert óeðlilegt við það og ekkert við því að segja á þenslutímum að ríkissjóður þyrfti að grípa til þess að taka erlend lán til þess að mæta innlausn ríkisvíxla og ekki væri það framboð af fjármagni innan lands að því væri hægt að mæta á þeim vettvangi. En þegar það gerist hins vegar, eins og staðan er í dag, þar sem fjárfesting í atvinnulífinu er komin undir hættumörk, þar sem það liggur fyrir að einstaklingar halda að sér höndum eftir föngum og reyna að verjast því að auka enn við skuldsetningu heimilanna, að við þessar aðstæður sé svo komið að Seðlabankinn sé búinn að nota sem nemur tvöföldu eigin fé sínu til þess að kaupa ríkispappíra til þess að reyna að viðhalda vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar, þá er eitthvað að. Það sem er að er að peningamarkaðurinn er yfirfljótandi af ríkispappírum, skuldabréfum, ríkisvíxlum og nú ECU-bréfunum, húsbréfunum, sem öll eru með ríkisábyrgð, og síðan hefur ríkissjóður þurft að fjármagna í gegnum sig aðra fjárþörf Húsnæðisstofnunar. Þrátt fyrir það sem ég nefndi áðan, að á öllum öðrum sviðum er samdráttur í eftirspurn eftir lánsfé, að við þessar aðstæður þurfi ríkissjóður að leita til útlanda til þess að geta greitt upp ríkisvíxla, þá er eitthvað mikið að. Og ég held að hæstv. fjmrh. verði að koma með betri og frambærilegri skýringar en hann hefur gert áður.