Sala ríkisvíxla og fjármögnun ríkissjóðs

26. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:35:59 (1206)



[15:35]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Mér þótti miður að heyra þessa yfirlýsingu hæstv. forseta um að það hefði nú verið æskilegast að hægt hefði verið að meina mér um það. Það sem ég vil benda hæstv. fjmrh. á er það að hann hefur í tvígang, bæði í sinni fyrri og seinni ræðu, bent á það að aðrir aðilar en ríkið hefðu verið að koma að fullum . . .  Virðulegi forseti. Nú vil þannig til að ég er að beina máli mínu til hæstv. ráðherra. ( Fjmrh.: Það er tilgangslaust af því að hann má ekki tala. Þess vegna spyr ég hvort megi veita andsvar.) ( Gripið fram í: Farið þið bara í kaffi saman.)
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. hefur í tvígang, bæði í upphafsorðum sínum og í seinna svari, bent á það að aðrir aðilar en ríkið hafi komið af fullum þunga inn á innlendan skuldabréfamarkað. Það er alveg rétt, þeir hafa keypt þar á milli 7 og 8 milljarða. En þessir aðilar hafa fyrst og fremst verið að leysa af aðra innlenda lántöku með þessum skuldabréfakaupum. Þannig er það nánast alfarið hvað atvinnulífið snertir. Þetta eru leiðir sem það hefur haft til að komast undan afar háum vöxtum í bankakerfinu og ég hygg að það gildi það sama um sveitarfélögin þannig að þegar þetta hefur gerst hefur losnað um fjármagn á móti á hinum innlenda peningamarkaði. Mér finnst því langsótt sú skýring fjmrh. sem þarna er sett fram og þetta breytir ekkert stærðunum í peningamagninu í umferð þannig að eftir stendur að spennan sem er á markaðinum er fyrst og fremst vegna mikils framboðs af ríkispappírum.