Fjárveiting til vegagerðar í Reykjavík

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:51:11 (1213)



[15:51]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil í þessu sambandi lýsa því að ég geri mér fulla grein fyrir því í sjálfu sér að það eru ýmsar framkvæmdir í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu sem eru brýnar, en svo er reyndar um allt land. Þannig að það er ekkert einsdæmi að menn sjái fram á brýnar framkvæmdir í vegamálum.
    Ég vil hins vegar í þessari umræðu vekja athygli á því að Alþingi hefur borið gæfu til þess að líta á vegamálin sem mál sem ætti að leysa út frá sameiginlegum hagsmunum landsmanna allra. Ekki fara með þau í það kjördæmahorf sem hér er verið að gera. Ég ítreka það að góð vegagerð um allt land, sem tengir saman byggðirnar og landshlutana, er ekki síst mikið hagsmunamál fyrir Reykjavík sem höfuðborg viðskipta og verslunar, ég tala nú ekki um fyrir ferðaþjónustuna sem Reykjavík nýtur ekki hvað síst góðs af. Þannig að ég vara við því að setja málið í þetta samhengi.