Fjárveiting til vegagerðar í Reykjavík

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:54:00 (1215)



[15:54]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil bara taka undir það sem fram hefur komið hér í umræðunum, að hér er um mál að ræða sem varðar ekki einasta framkvæmdirnar sem slíkar heldur einnig atvinnumál og mikilsvert atvinnumál. Það er ljóst að það eru miklar sveiflur í þeirri atvinnugrein sem hér er um að ræða og það þarf að taka mið af því að það er mjög kostnaðarsamt að vera með mikið atvinnuleysi.
    Það er líka búið að reikna það út og það kom fram á fundi þingmanna Reykjavíkur og Reykjanesskjördæmis með sveitarstjórnarmönnum fyrir stuttu síðan að hér er um mjög arðbærar framkvæmdir að ræða í mörgum tilvikum og mér finnst ekki að hæstv. forsrh. geti vikist undan því að standa við þau stóru orð sem hann viðhafði hér fyrr í haust þar sem hann gaf fyrirheit um töluvert mikið meira heldur en núna virðist vera rétt á umræðustigi. Það hlýtur að vera krafa okkar sem tökum þátt í þessari umræðu og höfum heyrt í hæstv. ráðherra að hann standi við stóru orðin.