Fjárveiting til vegagerðar í Reykjavík

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:55:30 (1216)


[15:55]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með þeim sem sagt hafa að þetta mál hljóti að sjálfsögðu að koma til Alþingis og verða rætt á grundvelli vegalaga og ég ætla því ekki að fjölyrða um það. Hitt vekur furðu mína að hæstv. samgrh. skuli ekki vera viðstaddur þessa umræðu þar sem hér er verið að ræða stórt átak í vegamálum sem að sjálfsögðu allir hljóta að fagna að gert verði. Eðlilega hefur hv. fyrirspyrjandi borið fsp. sína fram til forsrh. þar sem það var hann sem tilkynnti um aðgerðir í vegamálum, en það er dálítið sérstakt að hæstv. samgrh. skuli ekki telja ástæðu til að vera viðstaddur þessa umræðu því væntanlega hefur málið ekki algjörlega verið tekið úr hans höndum.