Fjárveiting til vegagerðar í Reykjavík

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:56:42 (1217)


[15:56]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég vil vekja athygli á því að þær framkvæmdir sem hér er vakin athygli á, þ.e. vegaframkvæmdir á mótum Höfðabakka og Vesturlandsvegar, eru á vegáætlun. Það var búið að gefa fyrirheit um að þessar framkvæmdir ættu að eiga sér stað, það gerði hæstv. forsrh. strax í vor. Menn tóku það þannig og Vegagerðin tekur það þannig og það er búið að bjóða verkið út. Mér finnst því ákaflega einkennilegt þegar hér koma menn síðan upp, eins og hv. 6. þm. Norðurl. e., og skammar okkur Reykvíkinga fyrir það að vera að tala um okkar kjördæmi. Ég held að þetta sé nærri því í fyrsta skipti sem Reykvíkingar tala um vegaframkvæmdir hér á Reykjavíkursvæðinu, en ég veit ekki hversu oft er verið að ræða um önnur kjördæmi og vegaframkvæmdir þar. Það er því hlægilegt að láta sér detta í hug að við megum ekki opna munninn hér, þingmenn Reykjavíkur, um eitthvað sem gerist í okkar eigin kjördæmi. Það er búið að tala nógu lengi og nú þarf að fara að framkvæma.