Fjárveiting til vegagerðar í Reykjavík

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:00:54 (1219)



[16:00]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst merkilegt að þingmenn skuli tala um það sem harla lítið sérstakar aukafjárveitingar upp á 3,5 milljarða og mér finnst reyndar sumt í umræðunni hér afskaplega kostulegt. Sjálfsagt hef ég ekki talað nægilega skýrt. Ákvörðun hvað þetta varðar er tekin af framkvæmdarvaldsins hálfu.

Um þessa tillögu er sátt og framkvæmdarvaldið mun gera þessa tillögu. Ég kunni hins vegar ekki við og fannst það ekki viðeigandi og alls ekki í þessum sal, að segja að þessi ákvörðun væri endanlega ákveðin því hún verður ekki endanlega ákveðin nema hér.
    En af minni hálfu og ríkisstjórnarinnar þá er það ákvörðun og um þessa ákvörðun er sátt. Þannig að ef þessari ákvörðun verður ekki spillt hér í þinginu þá verður þessi ákvörðun tekin. En ég kunni ekki við að segja að þetta væri endanleg ákvörðun og segja það hér framan í þingheim. En að svo miklu leyti sem ég einn eða ríkisstjórnin getur tekið síka ákvörðun þá hefur slík ákvörðun verið tekin. Og ef þetta fær stuðning hér í þinginu þá eru engin vandamál. (Gripið fram í.) Samgrh. er á kafi í málinu og algerlega sáttur við það. Hann skrifaði reyndar merkilega grein í Morgunblaðið á dögunum sem mátti túlka sem stuðning við málið og allir aðrir góðir menn hljóta að styðja þetta mál því málið er þannig vaxið.