Skráning nafna í þjóðskrá

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:04:55 (1221)



[16:04]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrsta spurning þingmanns var: Er það ekki andstætt lögum um jafnan rétt manna að takmarkað og ófullkomið tölvukerfi hjá þjóðskrá Hagstofu Íslands ráði því hvernig nöfn manna eru rituð í opinberum skrám og gögnum, svo og hvernig menn skulu tjá nafn sitt?
    Í nóv. 1993 óskaði umboðsmaður Alþingis upplýsinga frá Hagstofu Íslands um skráningu þjóðskrár á mannanöfnum. Hagstofan svaraði þessu erindi með ítarlegu bréfi í lok sama árs. Með bréfi 20. sept. sl. sendi umboðsmaður síðan Hagstofunni álit sitt á þessu máli. Í áliti umboðsmanns segir orðrétt:
    ,,Í lögum nr. 37/1991 er ekki að finna sérstaka heimild fyrir Hagstofuna til þess að ákveða hvernig nafn manns skuli skráð í þjóðskrá. Verður því að leggja til grundvallar að almennt ber að skrá fullt nafn manns í þjóðskrá nema því hafi verið löglega breytt samkvæmt 21. gr. laga nr. 37/1991. Komist fullt nafn manns ekki fyrir í þjóðskrá er spurning hvernig með skuli fara. Ekki er vikið að þessu álitaefni í lögum nr. 37/1991. Miðað við það tölvukerfi sem Hagstofan notar fyrir þjóðskrá um þessar mundir er ekki unnt að skrá slík nöfn að fullu. Verður því að skammstafa þau svo hægt sé að færa nafn hlutaðeigandi manns

í þjóðskrá og fullnægja lagaskyldu um skráningu. Skv. 1. mgr. 20. gr. laganna er fullt nafn manns eiginnafn hans eða eiginnöfn að viðbættu kenninafni. Skv. 1. mgr. 1. gr. laganna er heimilt að gefa barni þrjú eiginnöfn. Eru því stundum engin tök á því að skrá í þjóðskrá fullt nafn þeirra manna sem bera mjög löng nöfn eða mörg eiginnöfn, jafnvel þótt þeir óski sérstaklega eftir því að rita fullt nafn sitt með þeim hætti almennt í lögskiptum, sbr. 2. og 3. mgr. 20. gr. laga nr. 37/1991, um mannanöfn.
    Ofangreind aðstaða getur hæglega leitt til mismunar. Þar sem nafnréttur er mikilsverður réttur persónuréttar tel ég nauðsyn bera til að tekið verði til athugunar hvort unnt sé að koma í veg fyrir þennan aðstöðumun við framkvæmd löggjafar um mannanöfn.
    Fram kom í viðræðum sem ég átti við hagstofustjóra og skrifstofustjóra Hagstofunnar 19. apríl 1994 að til stæði að semja nýtt tölvukerfi fyrir þjóðskrá á næstu árum og yrði þá tekið til sérstakrar athugunar hvort stækka ætti stafarýmið svo hægt væri að skrá lengri nöfn í þjóðskrá. Verði ekki talið fært að skrá lengri nöfn í tölvukerfi það sem notað verður fyrir þjóðskrá tel ég nauðsynlegt að settar verði skýrar reglur um það með hvaða hætti skuli brugðist við þegar fullt nafn verður ekki skráð í þjóðskrá.``
    Niðurstaða umboðsmanns er orðrétt þessi:
    ,,Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að nokkur aðstöðumunur sé við framkvæmd löggjafar um mannanöfn þar sem full nöfn þeirra einstaklinga sem heita mjög löngum nöfnum eða mörgum eiginnöfnum verða ekki skráð í þjóðskrá. Ég tel nauðsyn bera til að tekið verði til athugunar hvort fært sé að breyta þessu. Verði slíkum breytingum ekki komið við tel ég nauðsynlegt að settar verði skýrar reglur um það með hvaða hætti skuli brugðist við þegar fullt nafn verður ekki skráð í þjóðskrá.``
    Mér sýnist þetta álit umboðsmannsins svara fyrsta lið fsp. að fullu.
    Önnur spurningin hljóðar svo: Hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingu á tölvukerfi Hagstofunnar í þá veru að landsmönnum verði ekki mismunað með þessum hætti?
    Í áliti umboðsmanns Alþingis kemur fram að nokkur aðstöðumunur sé við framkvæmd löggjafar um mannanöfn. Í þessu felst brot á jafnræðisreglu stjórnarfarsréttar. Við þessu má bregðast með tvennum hætti. Með því að lögfesta reglur um styttingu langra nafna í þjóðskrá og öðrum opinberum gögnum eða með því að breyta tölvukerfi þjóðskrár og annarra opinberra skráa svo unnt sé að skrá löng nöfn. Ég tel óheppilegt að lögbinda reglur sem mismuna fólki og mun því beita mér fyrir því að þjóðskrá og öðrum opinberum skrám verði breytt. Með þessu yrði jafnræðisregla stjórnsýslulaga í heiðri höfð og farið til fulls eftir ábendingu umboðsmanns Alþingis. Reyndar hefur um nokkurt skeið verið unnið að undirbúningi endurnýjunar tölvukerfis þjóðskrár. Þetta verk er mjög umfangsmikið og tímafrekt og óvisst hvenær því lýkur. Endurnýjun þessi á að ná til alls tölvukerfis þjóðskrár, þar með talið til rýmis fyrir nöfn. Að fengnu áliti umboðsmanns Alþingis, sem áður var vitnað til, mun Hagstofan stefna að því að stafarými fyrir nöfn verði án takmarkana, en það var ekki raunhæfur kostur er núverandi tölvukerfi var tekið upp.
    Á það má benda að mál þetta er flóknara en kann að virðast við fyrstu sýn. Tölvukerfi þjóðskrár er ekki ein tölvuskrá heldur safn skráa þar sem hver tengist annarri. Stækkun á stafarýminu hefur áhrif á allt kerfið og öll þau forrit sem þar er beitt en alls eru þau yfir 300 að tölu. Í annan stað eru fjölmargir notendur, bæði opinberar stofnanir og einkafyrirtæki eru tengd þjóðskrá eða hafa lagað kerfi sín eftir henni. Breyting á rými fyrir nöfn í þjóðskrá hefur áhrif á alla notendur og kallar á breytingu fjölmargra flókinna tölvukerfa í landinu, ella væri hætta á að við færslu nafna úr þjóðskrá í önnur tölvukerfi yrði klippt af nöfnum. Þá má benda á að á sínum tíma var rými fyrir nöfn í þjóðskrá m.a. ákveðið með hliðsjón af stærð glugga í svokölluðum gluggaumslögum sem sniðin eru samkvæmt alþjóðlegum staðli. Þessi staðall hefur ekki breyst og lengist nöfn er hætt við að hluti langra nafna hverfi séu notuð gluggaumslög. Í þessu sambandi má og benda á rými á eyðublöðum og þessu líku, en slíkt rými er oft takmarkað og sama gildir um límmiða. Aukið stafarými nafna í þjóðskrá tryggir því ekki að unnt verði að rita eða lesa nöfn fullum fetum hvar sem er og hvenær sem er.
    Það sem hér hefur verið sagt breytir því ekki að nauðsynlegt er að mönnum sé gefinn kostur á að nöfn þeirra séu rituð fullum fetum í þjóðskrá. Hins vegar er sýnt að þótt breyting þjóðskrár sé möguleg og tæknilega gerleg ein sér er óvíst að hún leysi allan vanda þeirra sem bera mjög löng nöfn og vilja nota þau óstytt.
    Þriðja spurning: Hvað kostar að gera slíka breytingu?
    Ekki er ljóst hvað það kostar Hagstofuna að stækka rými fyrir nöfn í þjóðskrá. Ein sér yrði slík breyting afar dýr eða sem skiptir a.m.k. einum til tveimur tugum milljóna kr. Sem hluti heildarendurbóta á tölvukerfi þjóðskrár yrði hins vegar ekki um sérstakan viðbótarstofnkostnað að ræða. Ég tel því nauðsynlegt að hafist verði handa við heildarendurbætur tölvukerfisins án tafar fremur en að rokið verði til að stækka nafnarýmið eitt sér.
    Eins og áður sagði hefði þessi breyting áhrif á öll tölvukerfi sem tengjast eða eru löguð eftir þjóðskrá að þessu leyti. Breyting þeirra kostar vafalaust mikið fé en þó að líkindum mismikið hjá einstökum aðilum eftir aldri kerfanna, aðlögunarmöguleikum og endurnýjunarþörf í hverju tilviki. Í þessu sambandi skiptir miklu að þær breytingar sem gera þarf í tölvukerfi þjóðskrár komi fram í einu lagi og með góðum fyrirvara þannig að stofnunum og fyrirtækjum gefist rúmur tími til að bregðast við þeim og tengja þær viðhaldi og endurnýjun eigin kerfa.