Mengun af völdum erlendra skipa

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:18:11 (1225)


[16:18]
     Fyrirspyrjandi (Petrína Baldursdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svör hans. Það vekur óneitanlega athygli mína hversu hátt hlutfall af mengunaróhöppum hefur orðið af völdum skipa undir stjórn erlendra skipstjórnarmanna á sjó umhverfis Ísland eða eins og hann gat um hafa af tólf mengunaróhöppum átta skip verið undir stjórn erlendra skipstjóra. Það hlýtur að leiða hugann að því að það verði að skerpa þessar reglur. Hæstv. umhvrh. gat um ný lög um leiðsögn skipa og ég mundi gjarnan vilja heyra frá honum síðan hvenær þessi lög eru og hvenær þau tóku gildi og hvort eitthvað er farið að reyna á þau.
    Ég tek alveg undir með hæstv. umhvrh. um nauðsyn þess að einhvers konar mengunarbótasjóður verði stofnsettur til að standa straum af kostnaði vegna hreinsunar. Ég get líka tekið undir með hæstv. umhvrh. að nauðsynlegt sé ef ekki næst til þeirra sem hafa valdið tjóninu, ef ekki næst að fá greiðslu frá þeim, að til staðar sé einhvers konar mengunarbótasjóður sem tjónþolar gætu fengið greiðslu úr.