Förgun framköllunarvökva

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:30:32 (1229)


[16:30]
     Fyrirspyrjandi (Pétur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. svörin og þann áhuga sem ég heyri að hann hefur á þessum málaflokki. En eftir sem áður stendur staðreyndin eftir í upplýsingum hans að þrátt fyrir að hér hafi orðið aukning á þá er þó um eða yfir helmingur þessara efna sem enn fer til spillis út í náttúruna svoleiðis að ég legg mikla áherslu á að þarna er verk að vinna sem virkilega þarf að taka á og það heldur fyrr en seinna.
    Ég gat ekki heyrt betur, það var að vísu stutt, en hann segði að sér væri kunnugt um að þetta færi beint í holræsin, ég tók það þannig. Það er að mínu viti mjög alvarlegt mál.
    Hæstv. ráðherra gat um það að heilbrigðiseftirlit ætti að annast eftirlit og umsjón með þessu ásamt Hollustuvernd. Mér er líka kunnugt um að það eftirlit hefur oftar en ekki verið ónógt og það hlýtur líka að vera fyrst þetta fer beint í holræsi og hérna út í lífríkið í kringum okkur, þá hlýtur eftirlitinu að vera mjög áfátt. Ég verð að leyfa mér að segja það að vissulega væri það æskilegt að ráðherrann næði árangri í þessu umbótastarfi og ég fagna þeim upplýsingum sem koma fram hjá honum að hérna er væntanleg löggjöf til að taka á þessum málum og ég vona að það verði heldur fyrr en seinna.