Áhrif EES-samningsins á forsendur fjárlaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:35:29 (1231)

[16:35]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Á sl. hausti bar ég fram fyrirspurn í hv. fjárln. um áhrif samningsins um Evrópska efnahagssvæðið á forsendur fjárlaga. Í viðtölum við forstöðumann Þjóðhagsstofnunar kom fram að samningurinn hefði gefið 1,5--2 milljarða í tollalækkunum. Því sýndist ekki úr vegi að lýsa eftir þessum ávinningi í forsendum fjárlaga. Ekki var auðvelt að fá skýr svör frá fjmrn. um þetta efni. En seint og um síðir komu svör um útgjöld annars vegar vegna samningsins og tekjur hins vegar. Ljóst er að útgjöldin eru árið 1993, 1994 og áætlað 1995 samtals 801,5 millj. kr. en þegar kemur að tekjunum er málið óljósara.
    Hinn 14. okt. sl. barst mér eftirfarandi svar. Ég sleppi upphafsorðum sem ekki hafa innihald sem kemur málinu við. Þetta bréf er dags. 14. okt. 1994. Hér segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eins og kunnugt er tekur EES-samningurinn ekki til skattamála að öðru leyti en því að hann bannar að á séu lagðir skattar sem leggjast með mismunandi hætti á vörur frá aðildarríkjunum, m.a. þannig að innfluttar vörur séu skattlagðar með öðrum hætti en innlendar vörur. Ákvæði þetta þýddi að leggja varð af svokallaða fjáröflunartolla sem heimilt var að leggja á vörur frá aðildarríkjum EFTA og Evrópubandalagsins, [hér segir nú Efnahagsbandalagsins] samkvæmt fríverslunarsamningum við þessa aðila. Breyting þessi var gerð með lögum sem tóku gildi á síðasta ári. Í heild hafði breyting þessi lítil áhrif á álagningu gjalda á viðkomandi vörur og var við það miðuð að tekjur ríkissjóðs hvorki ykjust né minnkuðu. Þá var tollum á bíla og bensín einnig breytt í vörugjöld svo og aðflutningsgjöldum sem áður voru lögð á þessar vörur. Hér var einungis um formbreytingar að ræða sem ekki höfðu áhrif á tekjur ríkissjóðs. Aðrar breytingar sem snerta tekjuhlið fjárlaga hafa ekki verið gerðar. Þess skal getið að eftirlitsstofnun EFTA hefur gert nokkrar athugasemdir við tiltekna þætti í álagningu vörugjalda. Ekki er gert ráð fyrir að þær breytingar sem unnið er að af því tilefni hafi áhrif á tekjur ríkissjóðs.``
    Segir þar svo í bréfinu. Ekki er annað að sjá af þessu svari en að fjáröflunartollar sem heimilt hafði verið að leggja á vörur frá aðildarríkjum EFTA og Evrópubandalagsins og leggja varð niður hafi eytt ágóðanum af niðurfellingu tolla. Síðan hafi tollum á bíla og bensín og aðflutningsgjöldum sem áður voru

á lögð verið breytt í vörugjöld. Ekki er hægt að skilja þetta svar öðruvísi en svo að ávinningur af samningnum hafi því enginn verið. Þá kemur og fram að eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við tiltekna þætti í álagningu vörugjalda.
    Virðulegur forseti. Fyrirspurn mín liggur hér fyrir um hvaða áhrif samningurinn hefur haft á forsendur fjárlaga, tekjuhlið og útgjaldahlið, og hver áhrif samningurinn er talinn hafa á ríkisfjármál árið 1995. Ég verð að stytta mál mitt og les því ekki fyrirspurnina nákvæmlega.