Áhrif EES-samningsins á forsendur fjárlaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:39:10 (1232)


[16:39]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við fyrirspurn hv. þm. vil ég segja þetta og þá er ég að tala um fyrri hluta fyrirspurnarinnar, þ.e. hvaða áhrif samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hafi haft á forsendur fjárlaga 1995; a. á tekjuhlið, b. á gjaldahlið.
    Vorið 1991 var gerð athugun á hugsanlegum áhrifum EES-aðildar á ríkisfjármálin á vegum fjmrn. Niðurstöður þessarar athugunar voru síðan birtar í sérstakri skýrslu, Evrópa 1992 og ríkisfjármálin, sem er þetta rit sem ég held á hér og hefur verið gefið út af fjmrn. Í fyrsta kafla skýrslunnar eru dregnar saman helstu niðurstöður. Þar er m.a. lýst ýmsum þeim þáttum sem áhrif hafa á ríkisfjármálin í kjölfar aðildar. Meginniðurstaðan er sú að aðlögun íslensks efnahagslífs að evrópska markaðnum muni hafa jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs. Þessi áhrif koma bæði fram í auknum tekjum vegna meiri umsvifa en ella í efnahagslífinu og sparnaði í ríkisútgjöldum. Þessara efnahagslegu áhrifa gætir í forsendum fjárlagafrv. fyrir árið 1995 með beinum og óbeinum hætti. Þannig hefur batnandi hagur aðildarríkja EES jákvæð áhrif á íslenskan þjóðarbúskap á þessu ári og því næsta sem m.a. birtist í auknum útflutningi, bættum viðskiptakjörum, jákvæðum vöruskiptum og lækkun erlendra skulda. Í kjölfarið aukast tekjur ríkissjóðs vegna aukinna umsvifa í efnahagslífinu.
    Áhrifin á gjaldahliðina eru kannski ekki jafnsýnileg en þar má t.d. benda á nýjungar í útboðsmálum ríkisins sem skilað hafa umtalsverðum árangri í sparnaði en þær eru bein afleiðing af aðild Íslands að EES. Það sem mestu máli skiptir er hins vegar sú staðreynd að aukið frelsi í alþjóðaviðskiptum krefst agaðrar hagstjórnar og eykur þar með körfur um aðhald í ríkisfjármálum. Varanlegur halli á ríkissjóði, jafnt á uppgangs- sem á samdráttartímum samræmist ekki ríkjandi aðstæðum og því er brýnt að sá efnahagslegi ávinningur sem af EES-samningnum hlýst verði notaður til að bæta stöðu ríkissjóðs.
    Þessi mál hafa reyndar verði talsvert til umræðu á fundum fjármálaráðherra Evrópubandalagsríkjanna og EFTA en slíkir fundir hafa verið haldnir a.m.k. þrisvar sinnum. Þar hefur komið fram að fjármálaráðherrarnir hafa reynt að samræma stefnu sína og reynt að fylgja eftir því sem kom fram í Maastricht-samningnum og eru þær kröfur sem gerðar eru vegna hugsanlegrar aðildar þessar ríkja í EMU, European Monetary Union. Það á að sjálfsögðu ekki við Íslendinga en það kann að vera athyglivert að það komi fram hér í þessu svari að Íslendingar sýna það nú að þeir gætu tekið þátt í þessu samstarfi, þessu peningalega samstarfi, vegna þess að þeir standast þær kröfur nú þegar sem gerðar eru um skuldir þjóðarinnar, um verðbólgu, um hlutfall halla opinberra aðila miðað við landsframleiðslu og slíka þætti. Þannig má lýsa þessum óbeinu áhrifum á ríkissjóð.
    Í öðru lagi var spurt hvaða áhrif samningurinn er talinn hafa á ríkisfjármál árið 1994. Ljóst er að áhrif samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem tók gildi um síðustu áramót eru svipuð á ríkisfjármálin og lýst er hér að framan. Hins vegar þarf að leggja áherslu á að aðlögun íslensks efnahagslífs að evrópska markaðnum tekur tíma og þar með verða áhrifin sterkari og meiri eftir því sem frá líður. Þannig má gera því skóna að áhrifin á ríkisfjármálin séu minni á yfirstandandi ári heldur en búast má við árið 1995 án þess þó að unnt sé að leggja á þau talnalegt mat.
    Það sem hv. þm. sagði um útgjöldin með því að telja saman þann kostnað sem hefur orðið vegna samninga um Evrópska efnahagssvæðið og ferðalaga og reyndar samninga við Evrópubandalagið þá er það ljóst að slíkur kostnaður er talsverður en það verður þá líka að taka tillit til þess að um kostnað hefði einnig verið að ræða þótt við hefðum ekki tekið þátt í hinu Evrópska efnahagssvæði því að sjálfstæð þjóð eins og Íslendingar þarf auðvitað að eiga sem best samstarf við aðra aðila. Það sem skiptir mestu máli, virðulegur forseti, er auðvitað veltuáhrifin, áhrifin á viðskiptakjör, þessi óbeinu áhrif og það er eftir þeim sem þeir eru auðvitað að slægjast sem taka þátt í jafnnánu viðskiptasamstarfi og þeir sem taka þátt í hinu Evrópska efnahagssvæði.