Áhrif EES-samningsins á forsendur fjárlaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 16:44:40 (1233)


[16:44]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er auðvitað mjög eðlilegt að það sé farið að athuga hver áhrifin af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið hafa á einstaka þætti í okkar búskap. Ég held að það væri forvitnilegt að beina sjónum að þeim spádómum sem hæstv. utanrrh. hafði uppi um aukningu þjóðartekna og annað þess háttar. Þar liggja fyrir skýrslur og spádómar.
    Það sem kom fram hér hjá hæstv. fjmrh. var nú harla óljóst um hina jákvæðu ávinninga að því er snerti tekjur fyrir ríkið. Þar var allt óljósara og væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra reyndi að gera skýrari grein fyrir því á Alþingi Íslendinga. Hitt liggur fyrir, eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, að útgjöldin hafa orðið mjög veruleg, eða röskar 800 millj. á ákveðnu tímabili. Það er ljóst að ef Íslendingar ætla að verða þátttakendur í þessum samningi og ef hann lifir eitthvað þá verða útgjöldin vegna ferðalaga mjög mikil á komandi árum. Það er athyglisvert að nú er mikið rætt um að draga saman í þeim efnum en sá þáttur á eftir að bólgna mikið út trúi ég.