Skuldastaða heimilanna

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:13:01 (1246)


[17:13]
     Félagsmálaráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í orðaskipti hv. þingmanna og deilur um keisarans skegg í þeim efnum. Ég vil hins vegar segja það að hér hefur sá misskilningur verið uppi að sú athugun sem fram þarf að fara sannarlega á þessari tvískiptingu annars vegar þeirra sem skulda og hins vegar þeirra sem eiga, kynslóðanna tveggja í landinu, er aldeilis ekki tengd hinni spurningunni, þ.e. hvenær vænta megi frv. til greiðsluaðlögunar. Þar er um skyld mál að ræða en annað tefur ekki hitt. Því stendur það sem ég sagði áðan að sú nefnd sem vinnur nú að smíði þess frv. hefur að minni ósk og mun að minni ósk hraða störfum og væntanlega leggja fram frv. í þessa veru nú á þessu haustþingi.
    Hitt er það sem lýtur að nánari greiningu á skuldum heimilanna og kynslóðanna í landinu sem er auðvitað nauðsynlegt gagn til lengri framtíðar þó að það liggi nú ekki ljóst fyrir hvernig best verði á því

tekið. Kannski kemur út úr þeirri athugun nokkurs konar hugmyndir um það hvernig megi við því bregðast. Það er hins vegar veruleiki sem við vitum af, veruleiki kynslóðanna fyrir verðtryggingu og eftir verðtryggingu, sú staðreynd að eldri kynslóð sem byggði á tímum neikvæðra vaxta yfir sig húsnæði er skuldlítil eða skuldlaus eins og athugun Félagsvísindastofnunar gerði grein fyrir frá 1988. Aftur bera þeir sem réðust í slíkar fjárfestingar eftir 1980 af því nokkuð þungar byrðar.
    Á hinn bóginn er rétt að undirstrika það líka að þótt þessar skuldatölur séu sannarlega mjög háar, þá eru þær að hluta til vegna félagslegra aðgerða. Þá er ég að vísa til námslánakerfisins og þess að lán hafa sannarlega hækkað í húsnæðislánakerfinu. Ég vil líka rifja það upp að aukið vægi í félagslega kerfinu sannarlega hækkar þessa tölu á sama hátt. Að hluta til er hér um meðvitaða pólitík að ræða og menn skulu ekki horfa fram hjá því og ég hygg að hv. Alþingi hafi verið meðvitað um það.
    Aftur á móti vil ég segja það hér að ég deili áhyggjum manna af vaxandi vanskilum í húsnæðislánakerfinu. Af því að hér er um það spurt hvernig á skuli taka þá er ég að láta skoða sérstakar aðgerðir í því varðandi greiðsluerfiðleika sérstaklega og heimildir í þá veru sem hér hefur verið minnst á. Einnig hef ég lýst því yfir opinberlega að ég vilji láta skoða gaumgæfilega kosti þess að í húsbréfakerfinu verði hugsanlega um þrjá valkosti að ræða varðandi tímalengd lána, 15 ár, 25 ár og 40 ár. Lengri lánstími mun hins vegar sannarlega auka að einhverju leyti afföll húsbréfa. Það eru út af fyrir sig plúsar og mínusar í því en ég vil láta skoða það mjög nákvæmlega og vænti þess að fá niðurstöðu fyrr en síðar.