Skuldastaða heimilanna

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:22:04 (1251)


[17:22]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bað um orðið til þess að bera af sér sakir því síðan stóð hv. þm. upp og varði með kjafti og klóm þá ríkisstjórn sem hún var rétt að ganga út úr. Ég hlýt, virðulegi forseti, að benda á að það hefði verið miklu nær að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefði flutt þessa ræðu þegar rætt var um vantraust á ríkisstjórnina sem hún greinilega ber enn þá þær taugar til að hún varði öllum tíma sínum til þess að segja það hvað hefði verið gripið til góðra aðgerða í ríkisstjórn sem hún sat í. Maður hlýtur að spyrja í framhaldinu: Af hverju í ósköpunum var þingmaðurinn að yfirgefa ríkisstjórnina? Svona hlýtur . . .  
    ( Forseti (StB) : Forseti vill vekja athygli hv. þm. á því að hann fékk orðið um stjórn fundarins.)
    Virðulegi forseti. Ég var að rökstyðja það að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi farið langt út fyrir það sem á að vera undir því að ber af sér sakir. Hún var ekki að bera af sér sakir heldur var hún að lýsa ágæti þeirrar ríkisstjórnar sem hún var rétt gengin úr.
    Virðulegur forseti. Svona hlýtur að fara fyrir þeim sem vinna í pólitík eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerir. Það getur ekki farið öðruvísi fyrir þeim en að þeir lendi hvað eftir annað í því að verða í þversögn við sjálfan sig.