Húsaleigubætur

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:38:53 (1258)


[17:38]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Mér fannst koma fram í þessari umræðu að félmrn. og félmrh. hefði ekki staðið við það að taka upp viðræður við sveitarfélögin. Ég minnist þess þegar ég var í því embætti þá var í júnímánuði skrifað til sveitarfélaganna þar sem var óskað eftir viðræðum við þau vegna þeirra loforða sem þar voru gefin og hæstv. félmrh. upplýsir að hann hafi í júlí átt samtöl við sveitarfélögin um þetta efni. Það væri fróðlegt að vita hvort það hafi komið fram einhverjar beinar tillögur, og beini ég því til ráðherrans, einhverjar beinar tillögur á þessum fundum sem hann hefur átt við sveitarfélögin um breytingar á lögunum. Ég hef ekki orðið vör við það. Ég vil segja að hér er ekkert verið að senda reikninginn til sveitarfélaganna, hér er fyrst og fremst um að ræða viðbót við þær 250 millj. sem sveitarfélögin hafa látið í húsaleigubætur á almennum markaði. Og ég verð að segja að það veldur mér vissulega miklum vonbrigðum að mörg sveitarfélög eru að hafna mikilli kjarabót til lægst launaða fólksins í sínum sveitarfélögum.