Olíumengun á sjó

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:44:53 (1261)


[17:44]
     Fyrirspyrjandi (Petrína Baldursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja fyrir fyrirspurn til hæstv. samgrh. um olíumengun á sjó.
    Tilefni fyrirspurnarinnar er olíuleki sem kom frá flutningaskipinu Carvik frá Kýpur. Fimm göt komu á flutningaskipið er það tók niðri við Valhúsabauju fyrir utan Hafnarfjörð. Skiðið hélt áfram för sinni yfir Faxaflóa að Grundartanga þar sem skipið lagðist að bryggju. Skipið missti olíu á leiðinni þannig að olíubrák sást á Faxaflóa og olíumengun varð á ströndinni, bæði á Seltjarnarnesi og Kjalarnesi, með umtalsverðum áhrifum á fuglalíf og útivistarsvæði.
    Carvik, sem er um 16.200 tonna skip, steytti á skeri eins og áður sagði. Þegar skipið losnaði var ákveðið að stefna því til Grundartanga til að kanna skemmdirnar, en þangað var för skipsins heitið til að lesta 7 þús. tonn af málmblendi. Fram kom í sjóprófunum sem haldin voru fyrir héraðsdómi Reykjaness vegna óhappsins að skipið kom að landi nokkru fyrr en áætlað var. Skipstjóri skipsins reyndi að ná sambandi við hafnsögubátinn til að láta vita um breyttan komutíma, en náði ekki sambandi við hafnsögumann. Skipið stöðvaði við bauju þar sem gert var ráð fyrir að hafnsögumaður kæmi um borð. Haugasjór var þennan dag, um 8 vindstig, og skipið, eins og áður sagði, tók niðri með þeim afleiðingum að göt komu á það. Carvik komst af strandstað fyrir eigin vélarafli þegar falla tók að. Menn telja að hefði lóðsbáturinn verið á staðnum þegar skipið kom að landi hefði ekkert strand átt sér stað. Um það voru bæði hafnsögumaður og skipstjóri Carvik sammála við sjóprófin.
    Þetta tilvik sýnir glöggt þá hættu sem vofir yfir umhverfi og lífríkinu vegna óhappa af þessu tagi. Ef koma á í veg fyrir að tjón hljótist af för skipa sem orðið hafa fyrir óhappi er nauðsynlegt að um för þeirra hér við land gildi skýrar reglur. Það þarf að liggja ljóst fyrir hver fer með yfirstjórn aðgerða og eftir hvaða áætlunum er unnið. Því spyr ég hæstv. samgrh. á þskj. 82:
  ,,1. Hvaða yfirvöld heimiluðu flutningaskipinu Carvik að sigla frá slysstað út af Skerjafirði yfir Faxaflóa og að Grundartanga með lekan olíugeymi í byrðingi skipsins?
    2. Hvaða reglur gilda um för skipa hér við land sem orðið hafa fyrir áfalli (leka) þannig að hætta er á áframhaldandi olíumengun af þeirra völdum?
    3. Telur ráðherra þörf á að skerpa þær reglur í ljósi óhapps flutningaskipsins Carviks og annarra tilvika undanfarin ár?``