Olíumengun á sjó

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:50:07 (1263)


[17:50]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Petrínu Baldursdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Ég verð að segja að það vakti athygli mína og fleiri aðila þegar mátti lesa í Morgunblaðinu 23. sept. sl. eftirfarandi frétt, með leyfi forseta:
    ,,Olíuleki kom að flutningaskipinu Carvik frá Kýpur eftir að það steytti á skeri út af Hafnarfirði kl. 13.30 í gær``, þ.e. 22. sept. Síðan er skipinu veitt heimild til að sigla til Grundartanga og þar leggst það að bryggju kl. 21.30. Mér fannst í svari ráðherra koma fram það sem ætti ekki að geta gerst, þ.e. að ekki skuli vera ákveðinn aðili sem getur tafarlaust stöðvað skip af undir þessum kringumstæðum. Það hefði verið eðlilegt að þetta skip hefði verið stoppað af, farið með það inn til Hafnarfjarðarhafnar og þar sett mengunarflotgirðing í kringum skipið, en ekki að langur tími líði frá því að skipið steytir á skeri og því síðan leyft að sigla til Grundartanga með þessari mengunarhættu sem raun ber vitni. Það má kannski þakka að sjór skyldi ekki vera hlýrri en var, annars hefði enn meiri olía lekið úr skipinu.