Framkvæmdir í samgöngumálum í kjölfar sameiningar sveitarfélaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 17:57:16 (1267)


[17:57]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Fyrsta spurning hljóðar svo: Hvaða fjárveitingar eru ætlaðar til sérstakra framkvæmda í samgöngumálum í kjölfar sameiningar sveitarfélaga á þessu ári? Fjárveitingar til framkvæmda í vegamálum voru ákveðnar með vegáætlun í mars 1993. Fjárveitingar til framkvæmda í flugmálum voru ákveðnar með flugmálaáætlun í maí á þessu ári og fjárveitingar til framkvæmda í hafnamálum voru ákveðnar í fjárlögum þessa árs. Þessi mál hafa síðan ekki verið tekin fyrir hér á Alþingi.
    Í öðru lagi: Hefur sameining sveitarfélaga breytt forgangsröðun verkefna í samgöngumálum á næstu árum? Eins og ég sagði áðan hefur hvorki flugmálaáætlun né vegáætlun verið lögð fyrir Alþingi og vísa ég til þess.
    Í þriðja lagi er spurt: Telur ráðherra að unnt verði að standa við fyrirheit þau sem gefin voru af hálfu félmrn. varðandi samgöngumál þegar undirbúin var sameining sveitarfélaga? Ég átta mig ekki alveg á efni þessarar spurningar. Ég hygg að henni hafi verið beint til rangs ráðherra, kannski hefði átt að beina henni til fyrrv. félmrh., hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.
    Eins og hv. þm. tók fram áðan samþykkti ríkisstjórnin eftirfarandi í samgöngumálum, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við ákvörðun um fjárveitingar og forgangsröðun framkvæmda í samgöngumálum á næstu árum verði m.a. tekið tillit til sameiningar sveitarfélaga.``
    Svo mörg voru þau orð. Hv. þm. hafði þetta sjálfur eftir og við þetta hefur verið staðið. Ég er raunar hissa á því að hv. þm. Pétur Bjarnason, sem er frá vesturbyggð, skuli leggja málið fyrir með þeim hætti hér að ríkisstjórnin hafi brugðist í sambandi við samgöngumál og í sambandi við hugsanlega sameiningu sveitarfélaga. Í fyrsta lagi var ákveðið eftir að Framsfl. fór úr ríkisstjórn, en hv. þm. er framsóknarmaður, að gera sérstakt átak með því að ljúka veginum yfir Hálfdán. Einmitt sú veglanging, sem nú er lokið, gerði það mögulegt að sameina í eitt sveitarfélag Bíldudal og Patreksfjörð. Það er svo annað mál að Tálknafjörður kaus að vera ekki með í þeirri sameiningu. Þannig féllu atkvæði þar fyrir vestan.
    Ég veit ekki hvort ég átti að skilja ummæli hv. þm. svo að það hafi verið ástæða til þess að fresta veglagningunni yfir Hálfdán þangað til atkvæðagreiðslan hafði farið fram eða hvers konar útúrsnúningur þetta er. Auðvitað er veglagningin yfir Hálfdán talandi dæmi um einmitt þá forustu sem samgrh. hefur haft um það að reyna að sameina atvinnusvæði og greiða þannig fyrir sameiningu sveitarfélaga.
    Hitt veldur mér vonbrigðum að sú mikla vinna sem hafði verið lögð í það að mynda eitt hafnasamband á þessu svæði skuli ekki hafa borið árangur, nefnilega á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Einhverra hluta vegna hafa umræður um þau efni dregist á langinn. Enginn vafi er á því að ef ekki hefði komið til atkvæðagreiðslunnar um sameiningu sveitarfélaga þá hefði hafnasamlagið þegar verið stofnað --- ég er þeirrar skoðunar --- í kjölfarið á veginum yfir Hálfdán. Ég vona svo sannarlega að sameining sveitarfélaganna á þessu landsvæði komi ekki í veg fyrir að Tálknfirðingar bindist samtökum á sviði samgöngumála með nágrönnum sínum í Bíldudal og á Patreksfirði.

    Ég hygg að við þingmenn hljótum að vera sammála um það að vitanlega ber okkur að hyggja að því á næstu árum, eins og stendur í samþykkt ríkisstjórnarinnar, að treysta innviði þeirra sveitarfélaga sem nú hafa sameinast. Auðvitað hljótum við að gera það. En við hljótum um leið að leggja áherslu á að stækka atvinnusvæðin þó fleiri sveitarfélög séu en eitt. Við hljótum líka að leggja áherslu á að tengja byggðarlögin saman og að tengja landsfjórðungana saman þó svo að ekki séu í sama sveitarfélaginu. Ef við mundum fylgja því bókstaflega að ekki mætti ráðast í vegaframkvæmdir nema áður hafi verið búið að sameina sveitarfélög á viðkomandi svæði er ég hræddur um að kórinn hér á Alþingi yrði í aðra átt. Ég er hræddur um að ýmsir hv. þm. mundu ekki segja amen og hallelúja við því.