Framkvæmdir í samgöngumálum í kjölfar sameiningar sveitarfélaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 18:04:54 (1270)


[18:04]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Það er ljóst að bættir vegir á síðustu árum hafa orðið forsenda fyrir því að hægt væri að sameina sveitarfélögin. Þannig gerðist þetta á sunnanverðum Vestfjörðum. Fyrst var byggður upp vegur um Hálfdán og síðan var farið í að sameina sveitarfélög.
    Það sem ég vil hins vegar segja varðandi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem hér hefur verið vitnað til þá blasir það við þegar hún er lesin að hún er ákaflega loðin. Þar er talað um að ,,m.a. skuli taka tillit til``. Það er ekki verið að segja að það eigi eingöngu að einblína á þau svæði þar sem sveitarfélög hafa verið sameinuð. Það er fyrst og fremst verið að benda kurteislega á að menn skuli ekki alveg gleyma því að sveitarfélög hafa verið sameinuð og hafa það m.a. í huga þegar verið er að endurskoða vegáætlunina.
    Ég vil hins vegar segja það sem mína skoðun að ef menn ætla sér að auka vegaframkvæmdir sérstaklega á þeim svæðum þar sem sveitarfélög hafa sameinast þá verður það ekki gert að neinu viti nema til komi aukin fjárframlög. Það held ég að blasi við hverjum einasta manni.
    Rétt í lokin vegna orða hæstv. samgrh. um hafnasamlag í Vestur-Barðastrandarsýslu vil ég upplýsa það að hugur heimamanna stendur til þess að það verði komið á þessu hafnasamlagi. Það hefur því miður dregist en einmitt þær góðu samgöngubætur sem við höfum séð á sunnanverðum Vestfjörðum hafa gert það að verkum að þetta er mögulegt og mun vonandi verða innan tíðar.