Framkvæmdir í samgöngumálum í kjölfar sameiningar sveitarfélaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 18:07:55 (1272)


[18:07]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Það er út af fyrir sig gott mál að sameina sveitarfélög ef íbúar vilja það. En hæstv. fyrrv. félmrh. fór offari í viðleitni sinni til að sameina sveitarfélög og greip til óyndisúrræða til að afla sameiningunni atkvæða. Það var gripið til þess ráðs, sem er sem betur fer fágætt, að bera fé á menn, lofa þeim gulli og grænum skógum til þess að hafa áhrif á það hvernig þeir greiddu atkvæði. Það eru í sjálfu sér ógeðsleg vinnubrögð. Það voru lögð fram loforð eða það sem menn tóku sem loforð um stórfelldar vegaframkvæmdir ef af sameiningu yrði m.a. og fleiru var lofað, fjárhagslegri fyrirgreiðslu, til þess að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu.
    Íbúarnir tóku e.t.v. eitthvert mark á þessum loforðum en þau reyndust haldlaus enda voru þau með fyrirvörum eins og hv. 3. þm. Vestf. skýrði skilmerkilega frá.
    Herra forseti. Hæstv. samgrh. er duglegur að sýna sig klippandi borða. Hér hefur vegurinn yfir Hálfdán komið til umræðu. Ég vil spyrja: Hver borgaði vígsluveislu vegarins yfir Hálfdán?