Framkvæmdir í samgöngumálum í kjölfar sameiningar sveitarfélaga

27. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 18:19:07 (1281)

[18:19]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í síðari ræðu ráðherra um þessa fyrirspurn að hann bar það á tvo þingmenn Vestfirðinga að þeir bæru ekki hagsmuni sinna umbjóðenda í vesturbyggð fyrir brjósti þegar þeir ræddu um forsendur átaksins í vegagerð yfir Hálfdán. Mér finnst þetta ómaklega sagt af hálfu ráðherra þó að það hafi legið illa á honum uppi á Hálfdán í septembermánuði þegar var verið að vígja þá framkvæmd sem er afskaplega myndarleg og hefði verðskuldað einn borða a.m.k. og kannski skæri líka. En mig langar bara að það komi fram þannig að hæstv. ráðherra geri það ekki aftur að bera það á mig og hv. þm. Pétur Bjarnason sem hann bar fram áðan. Flýting framkvæmdarinnar á veginum yfir Hálfdán fór af stað upphaflega vegna áforma og framkvæmda ríkisstjórnarinnar um að leggja niður Skipaútgerð ríkisins. Ráðherranum var fyrst bent á þetta þegar hann kynnti þau áform fyrir stjórn Skipaútgerðar ríkisins. Ég átti sæti í þeirri stjórn og benti ráðherranum einmitt á það þá að ættu þau áform eftir að ganga sem hann ráðgerði yrðu menn að grípa til þess að flýta þeirri framkvæmd. Svar hæstv. ráðherra er mér enn minnisstætt því að mér finnst það satt að segja lýsa slíkri vanþekkingu á högum Bílddælinga að mér líður seint úr minni því að ráðherrann spurði: Hvaða Hálfdán?