Jarðalög

28. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 19:23:32 (1297)


[19:23]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ef hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vill lesa það sem í skýrslunni stendur þá er komist að þeirri niðurstöðu þar að þessi fjárfestingarréttur sé ekki ótakmarkaður og hann takmarkist við hinar greinar fjórfrelsisins. Þessi niðurstaða er skýr og það er merkilegt ef hv. þm. telur sig ekki hafa neinar ástæður til að taka tillit til þess.
    Að því er varðar Rómarréttinn og þróun Rómarréttarins, þá er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið þjóðaréttarsamningur. Og breytingar á þeim samningi eru háðar samþykki Alþingis. Ég veit það hins vegar að hv. þm. hefur gert lítið úr þessum þætti málsins. En hann gerir almennt lítið úr því sem ekki er hans innsta sannfæring.