Jarðalög

28. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 19:24:34 (1298)


[19:24]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. kunni samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, að hann þekki 119. gr. samningsins sem kveður á um það að samningurinn sjálfur og allt sem honum tengist sé samþætt löggjöfinni, heyri undir hana og sé óaðskiljanlegur hluti, viðaukarnir og allt heila dótið sé samtengt. Og í bókun 35 frekar en 34 er það skýrt tekið fram að þar sem íslensk lög og ákvæði samningsins kann að greina á, þá séu það ákvæði samningsins og ákvæði Rómarréttarins sem hafi forgang og séu æðri íslenskri löggjöf. Svo huggar hv. þm. sig með því að þetta sé þjóðréttarsamningur. Sem betur fer er hann uppsegjanlegur. Kannski verður hér til einhvern tíma fyrr en seinna vonandi meiri hluti á Alþingi Íslendinga sem losar okkur út úr þessum vef sem hv. þm. hefur staðið að því með öðrum stuðningsmönnum ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að reyra Íslendinga í.