Jarðalög

28. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 19:25:56 (1299)


[19:25]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það væri vel þess virði að vekja athygli á því í svari við andsvari hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að þeir sem stóðu með honum gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og töldu þann samning vera stjórnarskrárbrot hafa hér hver á fætur öðrum lýst því yfir að þeir muni ekki berjast fyrir því þegar þeir komast í aðstöðu til þess, í meirihlutaaðstöðu á Alþingi, að segja sig frá þessum samningi ellegar breyta stjórnarskránni. Þeir hafa lýst því yfir að þeir muni ekki gera þetta og telji sig geta lifað við það að stjórnarskráin hafi verið brotin að þeirra mati. Ég tek það fram að ég er ekki þeirrar skoðunar sjálfur og stjórnarflokkarnir voru ekki þeirrar skoðunar að stjórnarskráin hefði verið brotin í þessu máli. En stuðningsmenn viðhorfa hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem greiddu atkvæði gegn samningnum m.a. á þeirri forsendu að hann væri stjórnarskrárbrot, hafa lýst því yfir hver á fætur öðrum að þeir muni ekki segja þessum samningi upp eða berjast fyrir því að honum verði sagt upp. Þannig að í þessum efnum, ef hv. þm. hefur þá skoðun á málinu að það eigi að segja þessum samningi upp, ( HG: Fyrr en seinna.) þá er hann einn á báti í þeim efnum og stjórnarandstaðan í því máli klofin.