Grunnskóli

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 14:32:39 (1306)


[14:32]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hv. 9. þm. Reykv., flokksbróðir minn Svavar Gestsson, hefur gert þessu ágæta frv. skil þannig að ég hyggst ekki endurtaka það sem hann hefur sagt þar um. Ég er því sammála um margt. Mig langar aðeins til að hnykkja á örfáum atriðum. Raunar er sumt af því sömu atriði og hv. 18. þm. Reykv. gerði að umræðuefni áðan.
    Ég ítreka að í 2. gr. stendur enn eins og staðið hefur frá 1974, með leyfi hæstv. forseta: ,,Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.``
    Og 37. og 38. gr. frv. hnykkja á því að börn og unglingar, sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, eins og þar segir, eigi rétt á sérstökum stuðningi í námi.
    Það er því miður svo að mjög hefur skort á það að sá stuðningur hafi verið veittur og börn, sem hafa átt við ýmsan vanda að stríða, hafa ekki fengið þá þjónustu sem þau hefðu átt skilda og hafa svo átakanlega þurft á að halda. Ég er að tala um þéttbýlið þar sem ég er kunnugust og þá get ég rétt ímyndað mér hvernig sú þjónusta hefur verið þar sem minni möguleikar eru á sérfræðilegri þjónustu.
    Við höfum horft upp á það í Reykjavík að sálfræðiþjónusta hefur orðið lakari. Dregið hefur verið úr fjárframlögum til hennar og ég hef miklar áhyggjur af því að hér séu ákvæði sem eru orðin tóm. Það þarf og það borgar sig að leggja mikið fé í að þau börn og unglingar fái alla þá þjónustu, sem unnt er að veita þeim, svo að þau nái þeim mögulega þroska sem geta þeirra leyfir undir bestu manna handleiðslu.
    Ég held að aldrei verði of oft hnykkt á því að við skuldum þessum börnum að þau fái þá þjónustu sem þau þurfa á að halda. Þar sem okkur hættir til að meta allt til fjár held ég að mér sé óhætt að fullyrða að borgi eitthvað sig er það þjónusta af þessu tagi sem sannarlega borgar sig þegar til lengri tíma er litið, að ekki sé talað um hamingju þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.
    Eins og hv. 18. þm. Reykv. ætla ég að koma inn á 30. gr. þar sem talið er upp það sem í aðalnámsskrá skal vera og síðan kemur fram að hugmyndir eru um að íslenska, stærðfræði og enska verði kjarnagreinar.
    Hv. 18. þm. Reykv. benti á allan þann fjölda fólks sem fer til náms á Norðurlöndum og þyrfti þess vegna á því að halda að hafa góða undirstöðu í norrænum málum. En það er ekki bara það sem ég held að mundi breytast ef enska yrði fyrsta mál. Ég get vel séð fyrir mér að það gæti verið praktískt, eins og maður segir, en það mundi breyta allri sjálfsvitund Íslendinga. Við erum nefnilega norræn þjóð og við erum mjög sterklega meðvituð um það. Ég held að væri minni áhersla lögð á hlut norrænna tungumála í íslenska menntakerfinu gæti svo farið að við færum að upplifa okkur sjálf sem hluta hins enskumælandi heims, hins engilsaxneska heims. Það er grundvallarbreyting á sjálfsvitund Íslendings. Ég hef af því miklar áhyggjur ef við ætlum að fara inn á þessa braut.
    Öll menning okkar, allar rætur okkar liggja meðal norrænna þjóða. Svo sjálfsagt sem það er að við séum hluti af Evrópu og hluti af heiminum í kringum okkur og séum hæf til þess að eiga viðskipti við það

fólk þá held ég að við ættum að veita norrænum uppruna okkar forgang.
    Mér er alveg ljóst að danska hefur ekki verið sérstaklega vinsæl kennslugrein í skólum sem liggur m.a. hreinlega í því að Íslendingum er ekkert sérstaklega tamt að tala dönsku. Danska og íslenska eru mjög ólík tungumál. En ég held að við eigum að leggja þetta á okkur eða koma okkur saman um að velja þá það norrænt tungumál sem er nær okkur og auðveldara er að bera fram og vissulega eru þau mál til. En ég er nógu íhaldssöm til þess að vilja halda í þau tengsl sem við eigum við Danmörku upp á gott og vont. Ég held að við getum ekki strikað yfir sameiginlega sögu þessara tveggja þjóða. Ég held að við yrðum minni menn af ef við héldum ekki til haga því sem við óneitanlega sóttum til danskrar menningar á sínum tíma. Við skulum ekki gleyma því að Kaupmannahöfn var höfuðborg landsins um árhundraða bil.
    Ég held að við séum að gera miklu meira en það að vera praktísk, ég held að við séum að yfirgefa svolítinn hluta af okkur sjálfum ef við minnkum að einhverju magni þá áherslu sem við höfum lagt á kennslu í norrænum tungumálum. Mér þykir þetta mjög mikilvægt og þess vegna vildi ég taka tíma hv. þingmanna til þess að benda á þetta.
    Öðru hef ég ekki við að bæta við það sem þegar hefur verið sagt frá mínum flokki. Ég hef áhyggjur af sérkennslunni og sálfræðiþjónustunni og ég hef áhyggjur af breyttri áherslu í tungumálakennslu.