Grunnskóli

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 14:40:01 (1307)


[14:40]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mun reyna að svara sem flestum af þeim spurningum sem til mín hefur verið beint og ég held að skynsamlegast sé að ég snúi mér að þeim ræðum sem fluttar hafa verið í dag og læt þá frekar mæta afgangi það sem kom fram í máli manna fyrir viku og ég hef ekki svarað.
    Fyrst í dag talaði hv. þm. Pétur Bjarnason og hann minntist fyrst á 18. gr. frv. sem fjallar m.a. um gerð skólamannvirkja. Um það vil ég segja að ég sé ekki beint ástæðu til þess að vera að breyta greininni, hún er í samræmi við ákvæði gildandi laga og ég held að engin ástæða sé til að vantreysta sveitarstjórnum til þess að gæta hagsmuna allra þeirra sem eiga að búa við skólamannvirkin þegar sveitarstjórnir eru að huga að hönnun og gerð mannvirkjanna.
    Hv. þm. spurði líka um hvað yrði um eignir fræðsluskrifstofanna. Það er atriði sem hlýtur að koma til samningagerðar um við sveitarstjórnirnar. Það eru ákvæði í 21. gr. frv. og ég sé ekki ástæðu til að óttast neitt um hvernig kunni að fara um þær eignir.
    Um það hverjir séu starfsmenn skóla og fjallað er um í 23. gr. er í raun og veru svarað í umsögninni um 23. gr. Þar er miðað við 12 starfsmenn í fullu starfi eins og þar stendur. Þar er komið til móts við þá kröfu skólastjóra að meta stjórnunarstörf vegna skólaaksturs, gæslustarfa á heimavistum, mötuneytum og ýmissa annarra starfa en kennslu.
    Þá fjallaði hv. þm. um ráðningu kennara. Ef ég skildi hann rétt átti hann við hvort skólastjóri kæmi ekki að ráðningu kennaranna. Ég held að það væri dálítið á skjön við sveitarstjórnarlögin ef slíkt væri sett í frv. og mér þykir afar líklegt að sveitarstjórn muni hafa fullt samráð, ef ekki að fela skólastjóra ráðningu starfsfólks, þar á meðal kennara.
    Ég vil ég ekki á nokkurn hátt snúa út úr orðum hv. þm. en mér fannst koma fram í orðum hans að hann vantreystir nokkuð skólanefndum til þess að sinna þeim mikilvægu verkefnum sem þeim eru ætluð nema að einhverjar hæfniskröfur væru gerðar til þeirra sem tækju þátt í störfum skólanefnda. Ég held að ekki sé ástæða til þess að vantreysta skólanefndum fyrir fram.
    Hv. þm. Svavar Gestsson gerði jöfnunaraðgerðirnar að umtalsefni og spurði --- ég vona að ég hafi skilið hann rétt --- hvort sú yfirfærsla á fjármunum sem fer til sveitarfélaganna að sé hluti af þeirri yfirfærslu sem fer til Jöfnunarsjóðsins. Svar mitt við því er já, það er rétt skilið hjá hv. þm. að Jöfnunarsjóðurinn fengi þá hluta af þeim kostnaði sem talið er að grunnskólinn muni kosta.
    Þá spurði hv. þm. um hvaða fjármuni væri í raun verið að tala, og vitnaði þar í ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem talaði í umræðunni fyrir viku, hvort við værum að tala um 5 milljarða eða 12 milljarða. Ég svaraði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um daginn. Það er auðvitað verið að tala um þann kostnað sem við teljum samkvæmt nýju frv., samkvæmt nýjum lögum, að muni bætast við það sem sveitarfélögin greiða í dag. Við erum þá í hæsta lagi samkvæmt útreikningum fjárlagaskrifstofu fjmrn. að tala um kannski 600--900 millj. kr. Það er sú upphæð sem við erum að tala um.
    Um sérkennsluna hafa fleiri en hv. þm. Svavar Gestsson rætt. Ég tel að því hafi verið svarað í umræðunni á þriðjudaginn var, bæði af mér og sérstaklega af hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur.
    Ég hafði áður talað um sérskólana og látið í ljós þá skoðun mína að það kynni að koma til greina að einhverjir þeirra mættu vera áfram hjá ríkinu og nefndi Heyrnleysingjaskólann. Ég ítreka að mér finnst sjálfsagt að athuga það betur.
    Um skólahverfin sem talað er um í 11. gr. þá held ég að þar hafi komið fram réttmætar ábendingar um að sveitarfélögin ættu að hafa heimild til þess að ákveða sjálf skiptingu sveitarfélaganna í skólahverfi og hvort skólanefndir verði fleiri en ein. Ég tel þetta réttmæta ábendingu og vonast til að hv. menntmn. athugi það sérstaklega.
    Hv. þm. Guðrún Halldórsdóttir og raunar einnig hv. þm. Guðrún Helgadóttir ræddu um 30. gr. frv. þar sem talað er um aðalnámsskrána. Þær töluðu um kjarnagreinarnar og vísuðu einnig til umsagnarinnar um 30. gr. Við höfum áður rætt um dönskukennsluna á hv. Alþingi. Ég hef látið í ljós efasemdir um að rétt sé að taka enskuna sem fyrsta erlenda málið en ég undirstrika það að verði sú ákvörðun tekin, sem verður ekki lagaákvæði heldur ákvæði í námskrá, þá felst ekki í þeirri ákvörðun að eitthvað sé verið að slaka á kröfum um kennslu í norrænum málum. Ef við erum ekki sannfærð um að kröfunum verði haldið eftir sem áður þá eigum við ekki að gera þetta. Ég vil þess vegna athuga þetta alveg sérstaklega og hef, eins og ég sagði áður, látið í ljós efasemdir um að það væri rétt. Ég nefni einnig í þessu samhengi, sem áður hefur komið fram af hálfu þeirra sem um hafa fjallað og það kemur beint fram í skýrslu nefndarinnar, að lögð er áhersla á að ekki verði á nokkurn hátt dregið úr kennslu í dönskunni, ekki á nokkurn hátt og það vil ég sérstaklega undirstrika.
    Ýmislegt var það sem kom fram í ræðum manna á þriðjudaginn var sem ég hefði viljað svara en ég sé að tími minn er að hlaupa frá mér. Ef ég veit rétt þá á ég eftir kannski fimm mínútur í viðbót í seinni umræðu og mun þá nota þann tíma. Ég mun koma svörum við þeim spurningum sem ég komst ekki yfir að svara til hv. menntmn. eða til þeirra hv. þm. sem beint hafa til mín sérstökum spurningum.
    Ég sé að það þýðir ekki fyrir mig að svara einstökum spurningum frá þeim þingmönnum sem töluðu á þriðjudaginn var.
    ( Forseti (SalÞ) : Forseti vill leyfa sér að grípa fram í fyrir ráðherra og spyrja hvort þetta er ekki í þriðja sinn sem hæstv. ráðherra tekur til máls?)
    Jú, það er rétt. Ég man það núna. Þá er ég búinn með tímann.
    ( Forseti (SalÞ) : Þá er það ekki misskilningur hjá forseta. Þá er eftir hálf mínúta ef hæstv. ráðherra vill nota hana.)
    Já, takk.