Framhaldsskólar

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 16:38:33 (1316)


[16:38]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Út úr því frv. til laga um framhaldsskóla sem hér er til umræðu hafa verið felld ákvæði sem hafa valdið nokkrum ágreiningi og taugatitringi. Á ég þá við ákvæði sem áður voru í frv. um lengingu skólaársins og styttingu framhaldsskólans. Ég ætla ekki að fjalla um þessi ákvæði sem komin eru út úr frv. en vil aðeins geta þess við umræðuna nú að ég tel að þessi breyting á frv. muni auðvelda framgang þess í þinginu enda er ég einn þeirra í þessu þjóðfélagi sem telja að lenging skólaársins hefði orðið til skaða og stytting framhaldsskólans sé ekki til bóta.
    Ég mun taka fyrir nokkur atriði frv. við þessa umfjöllun í þinginu og byrja á því sem er að finna í kaflanum um námsskipan, þ.e. VII. kafla frv. Þar er gerð tilraun til að einfalda námsskipan í framhaldsskólum með því að námsbrautum er fækkað mjög verulega. Um þetta má almennt segja að sú mikla sérhæfing á bóknámi, einkum og sér í lagi sérhæfing á bóknámi til stúdentsprófs, sem hefur átt sér stað á undanförnum árum hefur að mínu mati átt sér frekar hæpnar forsendur. Það hafa verið settar upp ýmsar námsbrautir sem hafa verið miðaðar við þröngar þarfir ákveðinna atvinnustétta án þess þó að þær hafi fengið raunverulega viðurkenningu innan þessara atvinnustétta þegar nemendur hafa lokið náminu. Ástæðan fyrir því er vafalaust sú að bóknámið til stúdentsprófs er að mjög miklu leyti almennt nám sem styðst við sterkar grunngreinar og sérhæfing í framhaldsskólanámi er í mörgum tilfellum ótímabær. Þessi þróun var hins vegar hluti af ákveðnu tískufyrirbæri sem gekk mjög langt.
    Frv. leitast við að einfalda þetta og í stórum dráttum er ég sammála þeirri viðleitni. Ekki síst tengist þetta niðurfellingu heimildarákvæðisins um framhaldsskólahverfin vegna þess að í reynd virkaði heimildarákvæðið þannig að það tryggði aðsókn að ákveðnum skólum sem höfðu sérhæft sig býsna mikið þannig að framboð fyrir nemendur á því skólasvæði var í raun og veru takmarkað. Ég ætla ekki að nefna neina sérstaka skóla en þess eru dæmi að til þess að gera litlir framhaldsskólar hafi séð sig tilneydda í þessari miklu samkeppni um framboð á sérhæfingu að bjóða fram sérhæfðar greinar á kannski tveimur eða þremur brautum og starfið í skólanum hafi mjög dregið dám af viðleitni þeirra til að taka þátt í almennu námsframboði á þröngum brautum. Ég tel því að þessi tískusveifla í framboði hafi á vissan hátt veikt stöðu hinna smærri skóla langt umfram það sem æskilegt hafi verið. Það hefði verið betra að skólarnir kepptu sín á milli um að gera vel á færri námsbrautum og gera vel í almennu námi með framboði á góðri kennslu, með því að ráða til sín góða kennara, með því að halda góðan vinnuaga og vinnufrið í skólunum, með almennt því andrúmslofti sem í skólunum ríkir og samstarfi kennara og nemenda frekar en að samkeppnin milli skólanna væri fyrst og fremst á grundvelli sérhæfingar sem hugsanlega hæpnar forsendur eru fyrir.
    Ég vil hins vegar taka fram að ég tel að frv. sem slíkt tryggi ekki beinlínis þessa einföldun vegna þess að kjörsviðin koma þar á móti og opna á þann möguleika að viðhalda því kerfi sem nú er í skólunum.
    Hæstv. menntmrh. lagði réttilega áherslu á það að þjónusta skólanna væri fyrst og fremst við nemendur. Þetta er hárrétt en því má ekki gleyma að skólarnir gegna margvíslegu þjónustuhlutverki, ekki aðeins við nemendur heldur við þjóðfélagið í heild. Skyldur skólans eru ekki síst gagnvart þjóðfélaginu. Þær ná langt út fyrir þarfir nemenda, þær eru við þjóðfélagið og við atvinnulífið. Þetta er ekki síst mikilvægt að því er varðar þau atriði í frv. sem snerta starfsnámið en gilda að sjálfsögðu einnig mjög í hinu almenna bóknámi.
    Ég er mjög sammála mörgu af því sem fram kemur í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu almennt og þó sérstaklega að því er varðar starfsmenntunina. Í skýrslunni er fjallað ítarlega einmitt um starfsnámið. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég er ekki fyllilega sannfærður um að margar mjög gagnlegar og góðar ábendingar sem koma fram í skýrslu nefndarinnar skili sér í frv. Ég vil aðeins leyfa mér að vitna í skýrsluna þar sem hún fjallar um þróun starfsnáms hér á landi og þar segir, með leyfi forseta, á bls. 69 í skýrslunni:
    ,,Hlutverk og verksvið fræðsluráðs sjávarútvegs og fræðsluráðs ferðamála þykja nokkuð óljós. Hlutverk iðnfræðsluráðs og fræðslunefnda hefur hvorki þótt nægilega vel skilgreint né verkaskipting þeirra í milli og því hafa þau ekki verið skilvirk. Af þessum sökum er stjórn iðnmenntunar þung í vöfum og líður langur tími frá því að fram koma tillögur að umbótum í námi og þar til þær koma til framkvæmda innan skólanna. Sum mál, svo sem námsskrárdrög, þurfa jafnvel að fara fyrir þrjá umfjöllunaraðila, fagnefnd, fræðslunefnd og iðnfræðsluráð, áður en ráðueytið getur tekið endanlega ákvörðun.``
    Þessi tilvitnun sem hér með lýkur varpar ljósi á það sem hefur að mínu mati lengi háð starfsmenntuninni og starfsnáminu hér á Íslandi að það er þungt í vöfum og ekki skilvirkt. Í frv. er engu að síður farin sú leið að byggja skipulag og nýsköpun í starfsnámi mjög verulega á ráðum og nefndum og er ég þar annars vegar að tala um samstarfsnefnd um starfsnám á framhaldsskólastigi sem á samkvæmt 27. gr. laganna að stuðla að tengslum skóla og atvinnulífs og vera menntmrh. til ráðuneytis um stefnumótun í starfsnámi og setningu almennra reglna um skipan og framkvæmd starfsnáms. Nefndin gerir jafnframt, bendi ég sérstaklega á, tillögur um forgangsröðun verkefna í starfsnámi, svo og sérstakar tilraunir og þróunarverkefni.
    Þá ber að geta starfsgreinaráða sem eru skipuð fyrir starfsgreinaflokka eða einstakar starfsgreinar. Starfsgreinaráðin gera tillögur um uppbyggingu starfsnáms og námsskrá í sérgreinum viðkomandi starfsnáms, svo og um tilhögun námsmats og eftirlit með gæðum kennslu og námsefnis. Það er einnig athyglisvert að samkvæmt 29. gr. frv. á starfsgreinaráðið að hafa frumkvæði að tillögugerð um breytta skipan náms og vera stjórnvöldum til ráðuneytis. Ég held að það mætti velta því fyrir sér í sambandi við þetta frv. hvort við erum ekki enn að vissu leyti flækt í flókið ráðgjafarferli sem er þungt í vöfum og skilar sér mun seinna inn í skólakerfið heldur en stöðugar breytingar á umhverfi atvinnugreinanna krefjast. Það er staðreynd að starfsnámið hefur ekki þróast nægilega vel í samræmi við þarfir atvinnulífsins og sambandið á milli atvinnulífsins annars vegar og skólakerfisins hins vegar er ekki með þeim hætti að það geti talist náið samstarf og frjótt. Ég vil hins vegar benda á að í 30. gr. frv. er heimildarákvæði sem er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Til að stuðla að sem bestu samstarfi skóla og atvinnulífs er skólanefnd heimilt að setja á fót eina eða fleiri ráðgjafarnefndir við skóla með fulltrúum atvinnulífs í viðkomandi byggðarlagi og skal gætt jafnræðis milli fulltrúa atvinnurekenda og launþega. Skólar leiti til starfsgreinaráða um tilnefningar fulltrúa í ráðgjafarnefndir í byggðarlagi.``
    Þar koma starfsgreinaráðin enn inn í þetta ferli. Ég hef talsvert velt því fyrir mér og varpa fram þeirri hugmynd hvort það væri óráðlegt að skólarnir fengju í raun og veru frelsi til þess að leita ráðgjafar beint hjá atvinnulífinu. Ég velti því t.d. fyrir mér ef við lítum á það byggðarlag þar sem ég er nú uppalinn, þar sem er styrk og stór verkmenntastofnun, þá er það mjög áberandi að sú góða stofnun annast ekki verkmenntun á því sviði atvinnulífsins sem er langsamlega fyrirferðarmest í þessu héraði, þ.e. matvælaframleiðslu. Og þá vaknar sú spurning hvort það er ekki atvinnulífinu fyrir bestu og skólunum fyrir bestu að tengslin verði bein og milliliðalaus. Að sjálfsögðu yrði að gera ráð fyrir því að þó að frumkvæðið að nýsköpun í starfsnámi kæmi til og yrði til með svona beinu samstarfi, þá væru til ráðgefandi stofnanir, ráð eða nefndir, sem væru ráðuneytinu til aðstoðar og hefðu eftirlitshlutverki að gegna þannig að skólinn væri fullkomlega ábyrgur fyrir því að framfylgja almennum markmiðum lagasetningarinnar og síðan hefði atvinnugreinin auk beins samstarfs við skólana aðstöðu til þess að mynda ráð í tengslum við ráðuneytið og

fylgja eftir eftirliti. Með þessum hætti hygg ég að aðlögunarhæfni skólanna yrði önnur og meiri, hraðinn í breytingum mundi verða meiri þó að ég viðurkenni fúslega að aðstæður framhaldsskólanna til að nýta sér slíka ráðgjöf beint úr atvinnulífinu hlytu að verða afskaplega misjafnar. En þá kemur á móti að skólarnir gætu miðlað upplýsingum sín á milli. Þeir sem hefðu sérstaka aðstöðu í sambandi við matvælaiðnaðinn t.d. gætu miðlað slíkum upplýsingum til verkmenntaskóla sem ekki hefðu jafngóða aðstöðu til þess og þeir sem væru betur tengdir öðrum atvinnugreinum mundu þá miðla á sama hátt af sinni þekkingu og sinni aðstöðu. Ég tel að einmitt sé byrjað að feta brautina inn á þessar leiðir í samstarfi prentiðnaðarins og menntmrn. og Bílgreinasambandsins einnig.
    Ég vildi hér koma þessu að vegna þess að ég tel að það skipti máli hvort það eru í raun og veru aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. miðstjórn vinnumarkaðarins, yfirstjórn vinnumarkaðarins og ASÍ sem eru þarna milliliðir. Skrifstofuveldi þessara stofnana, sem eru þarna milliliðar og eru ekki í beinum tengslum við starfsgreinarnar sem slíkar, vill sjálfsagt hafa fyrir hönd atvinnugreinarinnar stjórn á löggildingarákvæðunum og koma inn í þau atriði með beinum hætti. En á margan hátt stangast það kerfi, þetta milliliðakerfi, á við t.d. byggðapólitísk sjónarmið. Það stangast líka á við þau sjónarmið sem koma fram í því sem nú er tíska að kalla gæðastjórnun sem er nú bara fyrst og fremst sú heilbrigða hugsun að það sé ekki sami aðilinn sem annast stefnumörkun, skipulag, framkvæmdir og svo hinn, sá sem metur starfið. Að lokum tel ég að þetta flókna samráðskerfi sé ekki í sambandi við þann hraða aðlögunar sem nú er krafist af skólakerfinu.
    Þessum sjónarmiðum vildi ég koma hér á framfæri nú við 1. umr. þessa máls og mun ekki lengja umræðuna á þessu stigi málsins meira.