Framhaldsskólar

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 18:17:33 (1323)


[18:17]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég held að ekki sé um það að deila að þau frumvörp, sem hér hafa verið til umræðu hvort í framhaldi af öðru eða annað í framhaldi af hinu, þ.e. framhaldsskólafrumvarpið nú í framhaldi af umræðum um grunnskóla, verðskuldi það að þeim sé nokkur gaumur gefinn, a.m.k. ef horft er til þess hversu mikilvægur málaflokkur skólamálin eru í samfélaginu. Auðvitað er það með nokkurri eftirvæntingu sem maður fer að blaða í nýjum frumvörpum til laga um heildarlöggjöf fyrir þessi skólastig. En það verður að segjast eins og er að ég er sammála þeim sem hér hafa talað og komist að þeirri niðurstöðu að lokum að því miður sæti þessi frv. harla litlum tíðindum. Ég verð að segja það að eftir að hafa skoðað framhaldsskólafrv. nokkuð þá er það líka mín meginniðurstaða að að því er virðist sé það því miður meira til málamynda sem hér er verið að setja upp heildarútgáfu af lögum um framhaldsskóla í staðinn fyrir að flytja fáeinar brtt. við gildandi lög, svona meira til að klóra yfir verklítið og metnaðarlítið tímabil í lokin að sýna þetta.
    Það sést finnst mér m.a. í því að mörgu af því sem mundi e.t.v. einhverjum tíðindum sæta og horfa til breytinga í málefnum framhaldsskólans er slegið á frest um langt árabil og er þar af leiðandi meira einhvers konar markmiðslýsing, fögur áform skrifuð í skýin, heldur en lögfesting efnisatriða sem eiga að hafa gildi og hafa áhrif. Það er t.d. nokkuð sérkennilegt að menn skuli vera með gildistökuákvæði margra þátta eftir allt næsta kjörtímabil ef það verða full fjögur ár. Einhvern tímann um aldamótin. Eða dettur hæstv. núv. menntrmh. ekki í hug að næsti hæstv. menntmrh. kynni að vilja breyta einhverju í skólamálunum og setja mark sitt á þá hluti? Maður spyr sig að því hvaða tilgangi það þjóni eiginlega að lögfesta hluti sem svona langt er í að komist til framkvæmda.
    Það er a.m.k. talsvert nýmæli að ég held að vera að ganga frá löggjöfinni fyrir þarnæsta kjörtímabil, skólastefnunni fyrir þarnæsta kjörtímabil og væntanlega eða hugsanlega þarnæsta menntamálaráðherra. Þessi ríkisstjórn hefur brotið í blað og gert talsvert af því að afgreiða lög fyrir mitt næsta kjörtímabil, t.d. á auðlindagjald sem tekjustofn fyrir Þróunarsjóð sjávarútvegsins að taka gildi á miðju næsta kjörtímabili og þóttu nokkur tíðindi. En hér er gert enn betur því það er verið að leggja drög að þáttum sem eiga hugsanlega að hafa áhrif á þarnæsta kjörtímabili.
    Ég held, hæstv. forseti, að því miður sé þetta frv. frekar undirstrikun en hitt á heldur dapurlegu tímabili í skólamálum okkar sem er þetta kjörtímabil. Það hefur einkennst af nokkrum niðurskurði til þessa málaflokks. Það má svo sem færa það fram til málsvarnar að þetta hafa verið erfiðir tímar og þröngir í efnahagslífi þjóðarinnar. En fleira kemur til og er ég þó ekki að mæla með því að við slíkar aðstæður beri menn sérstaklega niður í skólamálum til að spara fé því flestir eru sammála um að ef við ættum einhvers staðar að reyna að byggja upp fyrir framtíðina þá væri það í menntuninni og seint muni okkur ganga að vinna okkur upp úr erfiðleikunum ef við skerum niður á þessu sviði.
    Í öðru lagi hefur verið þrengt að þeim sem í skólunum eru og starfa, bæði nemendum og kennurum með ýmsum hætti. Menn þekkja tilkomu skólagjaldanna og hvernig námslán hafa verið skert og fleira sem allt hefur sín áhrif í skólamálunum.
    Það er sitt lítið af hverju, hæstv. forseti, sem ég ætlaði að koma inn á í sambandi við þetta frv., ekki endilega í sömu röð og það er listað í frv. Ég vil nefna fyrst eitt lítið atriði sem ég rak augun í. Það er því miður ekki hægt að segja til gamans en það er umhugsunarvert í sambandi við vinnubrögð í stjórnsýslunni að hér er hæstv. menntmrh. að leggja fram frv. þar sem í 13. gr. eru lagðar skyldur á héraðslækna sem tengjast hollustu og heilsuvernd í skólum. Hví er ég nú að nefna þetta? Jú, það er vegna þess að það liggur í þinginu fjárlagafrv. sem gerir ráð fyrir því að héraðslæknaembættin verði, að því er best verður séð, lögð niður. Og þó þetta sé kannski ekki stórt í hugum einhverra þá spyr ég: Er það gott samræmi í stjórnsýslunni að hæstv. menntmrh., sem er í sama flokki og hæstv. fjmrh., að vísu svo lánsamur að vera ekki í sama flokki og hæstv. heilbrrh., leggi fram frv. sem gerir ráð fyrir því að þessir embættismenn í héruðunum séu með tiltekin verkefni? Það er auðvitað skynsamlegt og ég er ekki að mæla gegn því nema síður sé, ég held einmitt að þetta sé til marks um að héraðslæknaembættin þjóna margvíslegum tilgangi. Héraðslæknarnir eru þátttakendur í framkvæmd heilbrigðisstefnunnar á fjölmörgum sviðum eins og sést í því að í frv. er þeim ætlað að hafa umsjón með því að öll sú starfsemi sem tengist heilbrigði, heilsuvernd og hollustu og kemur inn á skólastarfið sé í lagi. En hæstv. fjmrh. hefur greinilega ekki heyrt af þessu eða hæstv. heilbrrh. því þeir ætla að leggja þessi embætti niður um áramótin. Kannski eignumst við bandamann í hæstv. menntmrh. og liðsmann í því að hætta við þá vitleysu. Það er sorglegt að sjá þann litla vísi að yfirstjórn heilbrigðismála sem byggður hefur verið upp úti í landsbyggðarkjördæmunum jafngrátt leikinn og nú stendur til að gera varðandi héraðslæknana. Ég bendi hæstv. menntmrh. á þetta í allri vinsemd að þarna eru hlutirnir á skjön og ekki eins og þeir ættu að vera.
    Í öðru lagi, hæstv. forseti, ætlaði ég að fjalla um ákvæði 36. gr. sem varðar kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga í sambandi við stofnun og byggingu framhaldsskóla. Þar er á ferðinni því miður eitt nýmæli sem er mjög í öfuga átt í frv. Þar á ég auðvitað við það að ríkið ætli að bæta gráu ofan á svart í sambandi við aðstöðumun skólahaldsins í dreifbýlinu og þéttbýlinu með því að lækka kostnaðarhlutdeild sína í uppbyggingu heimavista úr 100% í 60%. Það er alveg furðulegt í ljósi þess að það er viðurkennt og á móti því er yfirleitt ekki borið að einn sá mesti aðstöðumunur sem menn búa við í aðgengi til náms og reyndar mætti segja bara almennt varðandi undirstöðuþætti opinberrar þjónustu er sá hrikalegi aðstöðumunur sem íbúar strjálbýlu landsvæðanna búa við gagnvart möguleika til að mennta börn sín. Þó að þetta að færa þarna til kostnað af ríki yfir á sveitarfélögin skipti kannski ekki algjörlega sköpum um það þá er þetta samt í öfuga átt. Auðvitað. Vegna þess að þarna eru byrðarnar teknar af ríkinu, sem er hinn sameiginlegi sjóður allra landsmanna, og færðar yfir á herðar þeirra sem búa á viðkomandi svæðum. Þá má líka hafa af því áhyggjur og spyrja hvort ekki sé hætta á því að þetta ákvæði geti líka ýtt undir það að enn meiri hluti kostnaðarins lendi að endingu á nemendunum sjálfum eða foreldrum þeirra og er þó víst nóg fyrir.
    Ætli hæstv. menntmrh. hafi ekki einhvern tímann heyrt af foreldrum sem eiga kannski tvö eða þrjú börn í heimavistarskólum í hinum ýmsu byggðarlögum með kostnað upp á 200--300 þús. kr. að lágmarki á hvern bara vegna uppihaldsins á heimavistunum?
    Nú er það þannig að unglingar lifa ekki á loftinu þó þeir séu í heimahúsum en ég held það liggi algjörlega í hlutarins eðli og sé viðurkennt að þarna er á ferðinni gífurlegur viðbótarkostnaður. Ég þekki fjölskyldur og er nú reyndar úr einni sjálfur þar sem kannski upp í fjögur systkini voru samtímis á heimavist í mismunandi skólum á þremur landshornum. Halda menn að það sé auðvelt fyrir kannski venjulegar verkamanna- eða bændafjölskyldur að kljúfa slíkan kostnað sem er þá farinn að mælast kannski á bilinu 500 þús. til 1 millj. kr.? Bara vegna beins útlagðs kostnaðar og er þá enginn eyðslueyrir eða annað því um líkt í því. Telja menn á þennan aðstöðumun bætandi? Ég held að þvert á móti ætti að fara í þessa grein með alveg öfugu hugarfari og skoða það. Er ekki óhjákvæmilegt að ríkið greiði meira en ekki minna af rekstrarkostnaði heimavistanna og mötuneytanna í skólunum og komi þar með til móts við þá sem þar fá inni? Til mótvægis komi svo hækkaðir dreifbýlisstyrkir eða framlög til þeirra nemenda sem ekki fá inni í heimavistum en sækja nám milli byggðarlaga um langan veg af því að þeir eiga ekki annars kost.
    Ég fullyrði að þessi aðstöðumunur er að verða sá sem hvað mest stingur í augu af öllu í landinu fyrir utan kannski þætti eins og hærra vöruverð og hærra orkuverð á landsbyggðinni.
    Ég er þeirrar skoðunar og þar e.t.v. greinir okkur hæstv. menntmrh. á að menntun, a.m.k. upp á framhaldsskólastig, jafnalmenn og hún er orðin í nútímanum séu grundvallarmannréttindi, þ.e. að mönnum sé ekki mismunað þannig á grundvelli efnahags að sumir eigi þess kost en aðrir alls ekki að ljúka t.d. framhaldsskólanámi þegar 80--90% eða hvað það nú er eru að reyna það. Þá er ekki lengur hægt að tala um það sem einhvern afmarkaðan eða sérstakan hlut í samfélaginu. Það er orðin almenn regla og slíka undirstöðuþætti á að skilgreina þannig að öllum sé gert kleift án tillits til efnahags aðstandenda að kljúfa slíkt. Ég fullyrði að svo sé ekki og með minnkandi tekjum til að mynda í sveitum landsins hefur þessi mismunun orðið enn þá meira áberandi en áður var. Hvernig halda menn t.d. að staða fjölskyldna á sauðfjárræktarsvæðum sé með 40--50% tekjufall á nokkrum árum til þess að glíma við aðstöðumun af þessu tagi sem er á ferðinni nánast á öllum sviðum framfærslunnar í hærra vöruverði, orkukostnaði, meiri samgöngukostnaði og ekki síst í þessu tilviki, ef um það er að ræða að reyna að koma börnum til náms? Eins og flestir sjálfsagt þekkja heyrir það til undantekninga að fólk í sveitum hafi aðstöðu til að koma sínum börnum í framhaldsskóla nema í gegnum uppihald á heimavist eða í fjarlægu byggðarlagi eðli málsins samkvæmt. Auðvitað verður það þannig. Við ætlum ekki að byggja framhaldsskóla í hverjum sveitahreppi. En er þá ekki sanngjarnt að taka með sanngjörnum eða eðlilegum hætti á því að jafna þennan aðstöðumun?
    Mér finnst það mjög dapurlegt sem er að gerast með heimavistirnar. Meira vegna þess að það er táknrænt um að menn eru að fara í öfuga átt í þessum málum. Ég sakna þess að sjá þess hvergi stað, hvorki í framkvæmd skólastefnunnar nú né annars staðar í frv., að menn hafi einhverja hugsun á því að reyna frekar að jafna þennan mun en að auka hann.
    Mér sýnist líka að sú hætta blasi við að það færist í raun og veru enn meiri byrðar yfir á sveitarfélögin. það er alveg ljóst að ef t.d. á að leggja í kostnað vegna þess að menn vilji huga að nýtingu heimavistanna sem gistihúsnæðis vegna ferðaþjónusturekstrar á sumrin o.s.frv., þá er með því orðalagi sem er á greininni augljóslega verið að bjóða upp á það að þetta lendi að langmestu leyti í sveitarfélögunum til viðbótar 40% kostnaði sem þau eiga nú að taka upp vegna heimavistanna. Í sumum tilvikum er það kannski ekki alveg einfalt mál að ganga frá því hvernig sá kostnaðarhlutur á þá uppi að berast til að mynda vegna þess að það geta verið vissir erfiðleikar að finna út úr því gagnvart því sveitarfélagi hvar viðkomandi skóli er og öðrum sem tengjast með einhverjum hætti rekstri hans. Mér finnst þetta vond breyting og mundi leggja til að hún falli út úr frv. Er miklu nær mínu skapi að það yrði rætt og skoðað, t.d. í hv. menntmn., að reyna frekar að fara alveg í gagnstæða átt.
    Svonefndir dreifbýlisstyrkir munu hafa staðið í stað í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þeir hækkuðu nokkuð á síðasta kjörtímabili en munu hafa staðið í stað í krónum talið, ef ég veit rétt, á þessu kjörtímabili þannig að ekki hefur þar heldur verið um þróun að ræða í rétta átt. Síðan hafa skólagjöldin bæst við og vaxandi tilhneiging til að velta kostnaði af ýmiss konar viðbótarþjónustu í skólunum yfir á nemendur eða foreldra. Þar dregur líka í sundur og þar er stefnan líka í öfuga átt.
    Maður leyfir sér að spyrja sig að því, hæstv. menntmrh.: Getur það hugsast að ein afleiðing af skipun þeirrar nefndar sem hæstv. menntmrh. var svo ólánssamur að hrúga saman með átján manns, og aðeins einum einasta fulltrúa utan af landsbyggðinni, endurspeglist m.a. í hlutum eins og þessum? Gæti það hugsast að hinn ágæti skólamaður af Norðurlandi, Trausti fræðslustjóri, hafi ekki mátt við margnum, einn á móti sautján, og það hafi verið þungt að koma að sjónarmiðum þeirra sem þekkja af eigin raun eða hafa skilning á erfiðleikum skólahaldsins á landsbyggðinni? Það hefur að vísu verið deilt um það hvort þessi formúla sautján plús einn eigi að skiljast þannig að það hafi verið einn landsbyggðarmaður og sautján á suðvesturhorninu eða einn krati og sautján sjálfstæðismenn. Ég hef heyrt báðar kenningar og væri fróðlegt að menntmrh. upplýsti hvor væri sönn. En sama er. Ekki hefur það svo sem skipt miklu og gerir málið síst betra ef þessi eini hefði verið sérmerktur vegna þess að hann var krati en ekki sem eini landsbyggðarmaðurinn í nefndinni.
    Til þess að halda líka einhverju til haga sem ég tel þó vera jákvætt í þessu þá vil ég segja að ég er auðvitað ánægður með að menn hafa þó áttað sig á því að hugmyndir í nefndarálitinu um lengingu skólaársins voru fráleitar við núverandi aðstæður í íslenskum skólamálum. Þó ekki kæmi það til þá held ég að maður mundi setja stór spurningarmerki við það bara vegna hefða og venja og uppbyggingar íslensks samfélags að fara út í slíkt. Ég lýsi mig mikinn efasemdarmann um að það eigi yfirleitt að elta uppi erlendar formúlur af því tagi vegna ýmissa sérkenna í íslensku samfélagi sem ég held að séu okkar verðmæti sem við eigum að halda í, svo sem miklu meiri atvinnuþátttöku ungs fólks hér á námsárum en þekkist erlendis. Ég fagna því þess vegna að ráðherra hefur ákveðið að hafa þessar hugmyndir að engu, enda vita auðvitað allir og hæstv. menntmrh. ekki síst að það er geysilegt verk óunnið í sambandi við það að bæta það skólahald sem nú er í landinu, þ.e. í þá níu mánuði sem skólinn stendur. Ætli reynslan hafi ekki kennt hæstv. ráðherra það, ef hún hefur kennt honum eitthvað á þessum fjórum árum, að þar sé við ramman reip að draga að fá fjármagn og skilning á því sem þurfi að gera til þess að hægt sé að segja að skólahaldið sé sómasamlegt á þeim tíma sem nú er í lögum og er meiningin að halda áfram.
    Ég held að það hefði verið algerlega út í hött þegar maður hugsar um stöðuna í grunnskólanum að fara að lengja skólaárið og gera þá væntanlega götin í stundatöflunni enn þá meiri. Ég segi alveg eins og er að ég skil bókstaflega ekki hvað fólk er að fara með slíkum hugmyndum við vissar aðstæður. Ég get vel skilið það sjónarmið, þó að ég sé ekki endilega að lýsa mig sammála því, í fyllingu tímans að uppfylltum öllum þeim óskum sem menn hafa um samfelldan skóladag og annað þá vilji menn stefna á þetta sem markmið í framhaldinu. Það er alveg sjálfstætt atriði út af fyrir sig en við núverandi aðstæður er það fráleitt og það er fagnaðarefni að menn hafa horfið frá því.
    Þá, hæstv. forseti, um 6. gr. frv. og skipan skólanefndanna. Þar verð ég að segja alveg eins og er að þegar ég fór að lesa það atriði og bera það saman við núgildandi lög þá varð ég alveg furðu lostinn. Ég hafði ekki áttað mig á því, satt best að segja ekki haft hugmyndaflug til þess að láta mér detta það í hug, að til stæði að leggja til breytingar af þessu tagi. Hvar er nú hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sem spurði áðan hvort þetta væri bara kommúnismi og miðstýring? Ég ætlaði nefnilega að gleðja hv. þm. með því eða hryggja eftir atvikum að ég sé ekki betur en þetta sé bara argasti kommúnismi. Þarna á að stórauka miðstýringuna í skólamálum. Auðvitað er það ekkert annað en stóraukin miðstýring að breyta algerlega hlutföllum í skólanefndunum þannig að ráðherra fái hreinan meiri hluta í skólanefndunum án tilnefningar. ( Gripið fram í: Er það kommúnismi?) Ja, hvað er það? Er það ekki alla vega miðstýring? Og samkvæmt skilningi hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar þá leikur viss grunur á að það eigi eitthvað skylt við kommúnisma. En það er von að hv. þm. sé ruglaður í þessu þegar hann segir: Hæstv. menntmrh. leggur þetta til. ( Menntmrh.: Ég veit að þingmaðurinn veit betur.) Og þeir eiga að heita fulltrúar í einhverjum flokki sem heitir Sjálfstfl. og hefur kennt sig við hægri stefnu. ( Menntmrh.: Þingmaðurinn veit líklega betur en ég hvað er kommúnismi.) Ja, ég þekki það kannski minna af eigin raun. Ég hef aldrei austur fyrir járntjald komið eiginlega. Ég hef grun um að hæstv. ráðherra hafi farið einhverjar fínar reisur til Moskvu eins og ýmsir menn í Sjálfstfl. en það hefur undirritaður ekki gert. ( Menntmrh.: Nei, nei, nei, aldrei.) Náði því aldrei, náði aldrei þeirri forfrömun. En ég veit að ýmsir frammámenn í Sjálfstfl., þar á meðal einn hæstv. forsrh., fóru í mikla reisu til Moskvu. Þannig er nú það.
    En í alvöru talað, hæstv. forseti, og ætli ekki sé betra fyrir okkur að nota orðalag sem okkur Íslendingum er tamt, þá er það náttúrlega alveg furðulegt að hæstv. menntmrh. skuli detta í hug að leggja það til að fjölga fulltrúum ráðherra úr einum í þrjá án tilnefningar og fækka í nefndinni úr sjö í fimm. Það þýðir á mæltu máli að hæstv. ráðherra ætlar sér og fulltrúum ráðherra á hverjum tíma í skólanefndunum hreinan meiri hluta, óbundið af því hvaðan þeir menn koma eða hverja hann tilnefnir. ( Menntmrh.: Hver borgar skóla . . .  ?) Ég geri ekki mikið með það orðalag sem er haft galopið, að það sé æskilegt að þeir komi að jafnaði úr viðkomandi byggðarlagi. Það þarf engin breyting að verða á því, hæstv. ráðherra. Það er ekki þess vegna sem þarf að breyta þessu. Það er ekki eins og ríkið sé núna að taka til við að borga skólana. Hefur þetta gefist svona ákaflega illa að heimamenn í héraði fengju að vera með í ráðum eða starfsmenn skólanna, kennarar og nemendur? Er það vegna þess að það hefur verið svo afspyrnu vont að hafa þá í skólanefndunum að það þarf að falla frá þessu og opna það að ráðherra tilnefni einhverja þrjá einkavini sína eða flokksgæðinga? Við skulum bara staldra við það augnablik að það tækist svo ógæfulega til einhvern tíma á næstu öld að alþýðuflokksmaður kæmist aftur að sem menntmrh. og hugleiðum það, hæstv. menntmrh., hvernig sá flokkur hefur farið með völd sín og tilnefningar að undanförnu. Þó að margt megi segja um Sjálfstfl. þá held ég að því verði ekki mótmælt að Alþfl. hefur slegið hann út í flokkspólitískri valdníðslu af ýmsu tagi á þessu kjörtímabili. ( SvG: Hlutfallslega.) Hlutfallslega, sérstaklega þar sem það er miklu minni flokkur. Þá sjáum við það bara í hendi okkar að ef Alþfl., sem eins og ég segi yrði örugglega ekki fyrr en komið yrði talsvert inn á næstu öld eftir þá útreið sem flokkurinn fær væntanlega í næstu kosningum, kæmist í þessa stöðu þá yrðu lögin svona og menntmrh. gæti bara tilnefnt þrjá flokksgæðinga einhvers staðar og einhvers staðar að og hann hefði hreinan meiri hluta í öllum skólanefndum. Það er ekki mjög skynsamlegt.
    Það er annað í þessu sambandi, hæstv. forseti, sem vekur mér miklu meiri ugg. Það er að í næstu grein er skólanefndunum ætlað eitt mjög vandasamt verkefni og það er að ákveða upphæð gjaldtöku á nemendur í skólunum. Með öðrum orðum er það ákvæði sem hæstv. menntmrh. styðst við þegar hann lætur leggja á skólagjöld, sem reyndar orkar mjög tvímælis að sé hægt að gera með þeim hætti sem nú hefur verið vegna þess að í gildandi lögum er það alveg skýrt að ríkið á að kosta ekki bara laun og annað því um líkt heldur líka rekstrarkostnað grunnskólans eins og ég veit að menn þekkja. Í 32. gr. gildandi laga er þetta þannig. Þau ákvæði á því miður að fella út. Orðalag í núgildandi 32. gr. er alveg afdráttarlaust, með leyfi forseta: ,,Ríkissjóður greiði samkvæmt lögum þessum rekstrarkostnað framhaldsskóla.`` Síðan segir neðar í sömu grein: ,,Auk launakostnaðar greiðir ríkissjóður annan rekstrarkostnað af starfsemi skólans.`` ( Menntmrh.: Þetta er óbreytt í frv.) Er þetta óbreytt í frv.? Enda hefur hæstv. ráðherra túlkað þetta svo að hann mætti leggja á skólagjöld, er það ekki rétt? Já.

    En þá kemur að því: Miðað við lagatúlkun hæstv. ráðherra hver verður þá staða ráðherrans og ríkisstjórnar til að beita þessari lagatúlkun og ákvörðunum um skólagjöld þegar svo er komið að ráðherrann getur hreinsað út allar skólanefndir í landinu og sent þar inn hreinan flokkslegan meiri hluta sinn eða viðkomandi ríkisstjórnar? Frv. býður upp á það eins og það er úr garði gert. Ef skólanefndirnar skyldu nú ætla að fara að móast eitthvað við eða hækka skólagjöld þá er til ráð við því. Þá getur ráðherra þess tíma einfaldlega skipað þrjá grjótharða flokksjálka í það sem hafa hreinan meiri hluta í skólanefnd að hækka þessi gjöld eins og forsendur fjárlaga eða áform ríkisstjórnar stæðu til.
    Ég sé því ekki annað en líka í þessu sambandi vegna þess hlutverks sem skólanefndirnar þarna hafa, að ákveða upphæð þessarar gjaldtöku, sé mjög háskalegt að fara inn á þá braut að brjóta upp það jafnvægi sem í raun og veru var með nokkrum hætti í núverandi skipan milli fulltrúa sveitarfélaganna, þeirra sem starfa í skólunum og nemendanna og svo fulltrúa ráðherrans. Ef hæstv. ráðherra telur sig þurfa þarna meiri ítök þá væri a.m.k. að lágmarki rétt, finnst mér, að hann hefði ekki nema tvo af fimm. Og skólastjórnendurnir, fulltrúar starfsmanna og/eða nemenda væru með einhverjum hætti áfram inni með a.m.k. með einn fulltrúa með atkvæðisrétti. Mér finnst það alveg furðuleg breyting að rífa út úr skólanefndunum alla þrjá fulltrúana sem í gildandi lögum eru þar á vegum kennara og nemenda. Þetta mun vera þannig, hæstv. forseti, að í 7. gr. segir:
    ,,Í skólanefnd skulu sitja sjö menn. Tveir fulltrúar starfsmanna kosnir á starfsmannafundi, einn fulltrúi kosinn af nemendum skólans`` o.s.frv., þ.e. þrír fulltrúar frá sveitarfélögunum og einn frá ráðherra. Hér er því engin smábreyting á ferð. Hér er grundvallarbreyting á ferð. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, hér er á ferð stóraukin miðstýring því að í stað þess að áður höfðu fulltrúar sveitarfélaganna og starfsmanna skólanna og nemendanna sex af sjö stjórnarmönnum þá fengi ráðherrann samkvæmt frv. hreinan flokkslegan meiri hluta ef svo bæri undir, þrjá af fimm í nýju skólanefndunum.
    Síðan er annað sem ég vil spyrja hæstv. ráðherra um því að það er mjög sérkennilegt. Það er í umsögn um 6. gr. frv. Þar talað um að lagt sé til, ef ég man orðalagið rétt, að við skipun fulltrúa menntmrh. í skólanefnd verði m.a. leitað til aðila úr atvinnulífi hlutaðeigandi sveitarfélaga. Hvar er það lagt til? Í lagagreininni sjálfri er ekkert um það. Þar segir bara: ,, . . .   og þrír án tilnefningar og skulu þeir að jafnaði búsettir í sveitarfélagi sem á aðild að skólanum.`` Punktur. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er skýringin á þessu orðalagi? Er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að hægt sé að leggja einhverja stefnumörkun til með þessum hætti í umsögn um lagagrein í frv.? Ef það er ætlun ráðherra að það eigi að jafnaði að leita til þessara fulltrúa atvinnulífsins af hverju er það þá ekki sett með einhverju slíku orðalagi í lagagreinina? Það mætti þá prjóna áfram aftan við þennan lopa og segja: Og skulu þeir að jafnaði búsettir í sveitarfélagi sem á aðild að skólanum og koma frá atvinnulífi á viðkomandi svæði --- ef það er hugsunin. En það er ekki gert með þessum hætti. Ég get ekki skilið að það sé bindandi á nokkurn hátt eða hafi nokkurt sjálfstætt gildi að búa svona um þetta. En þetta vakti athygli mína, hæstv. forseti. Þetta er fremur óvenjulega orðað að tala um að leggja einhverja hluti til í umsögnum lagagrein sem eru svo ekki í nokkru samræmi við texta greinarinnar sjálfrar þegar hann er lesinn í frv.
    Hæstv. forseti. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þessum tveimur greinum og samhengi þeirra, þ.e. 6. gr. um skipan skólanefndanna, og 7. gr. um hlutverk þeirra, sérstaklega þegar kemur að því að ákveða upphæðir þessarar gjaldtöku. Ég tel að í því samhengi skoðað sé það enn fráleitara en ella, enn fráleitara en ella að þarna sé á ferðinni hreinn meiri hluti viðkomandi ráðherra óbundinn af tilnefningu. Það býður augljóslega þeirri hættu heim að þessi staða og þetta vald skólanefndanna eða hlutverk yrði notað í þessum tilgangi ef menn yrðu svo ógæfusamir að vilja halda lengra inn á braut þessarar gjaldtöku í skólakerfinu sem hæstv. ríkisstjórn því miður hefur verið svo ógæfusöm að rata.
    Það er einnig, hæstv. forseti, ástæða til að nefna ákvæði 15. gr. um inntökuskilyrði en aðrir ræðumenn hafa nú gert ágætlega grein fyrir því hér á undan mér og ég læt mér nægja að vísa til þess, m.a. þess sem hv. 9. þm. Reykv. sagði um það mál. Ég tek mjög undir með honum að það þarf að athuga það mjög vandlega hvort rétt er að hafa þetta eins og þarna er lagt til.
    Svo að lokum, hæstv. forseti, um þessa gildistöku frv. þá hlýtur maður auðvitað að leyfa sér ekki í neinum stráksskap heldur alvöru að spyrja hæstv. menntmrh.: Liggur nokkurn skapaðan hlut á? Til hvers er verið að strekkja með þetta frv. hér sem breytir sáralitlu og þá því miður í fleiri tilvikum til hins verra en er að mestu leyti um hluti sem menn munu láta sér detta í hug að taki gildi um aldamótin á þar næsta kjörtímabili? Er nokkur minnsta ástæða til að vera að nudda með þetta hér á þingi sem hefur í sjálfu sér nóg annað að gera og getur nú orðið stutt í annan endann hugsanlega, hæstv. forseti. Ekki vegna þess að ég sé að gera því skóna að hæstv. forsrh. verði jafnslæmur í skapinu og hann var hérna vorið 1992 þegar hann rak okkur heim fyrirvaralaust heldur einfaldlega vegna þess að aðstæðurnar taki af honum völdin og hann kunni að eiga fárra kosta völ innan skamms annarra en þeirra að eins og ég segi, stytta þetta þinghald mjög í annan endann.
    Ég vil svo, hæstv. forseti, vekja athygli á einu mjög kúnstugu. Mér finnst alltaf mjög skemmtilegt þegar menn eru hugmyndaríkir og leggja jafnmikið á sig í þágu göfugs málefnis eins og hv. þm. Sjálfstfl. gera. Það á við þáltill. hér á þskj. 76. Þar hafa nokkrir afreksmenn úr þingflokki Sjálfstfl., hv. þm. undir forustu Árna R. Árnasonar flutt merka tillögu um eflingu menntunar í framhaldsskólum á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar. Nú veit ég ekki hvort þessi ágæta tillaga hefur komið til umræðu eða ekki en

það hlýtur nú að mega nefna hana samt sem áður. Mér finnst það alveg bráðskemmtilegt þegar svona pappírar koma hér á borð okkar sömu dagana og ráðherra viðkomandi flokks í menntamálum er að mæla fyrir frv. um framhaldsskólann sem hann er að reyna að segja okkur að sæti einhverjum tíðindum og taki m.a. á starfsfræðslumálum. Þá leyfir maður sér að spyrja: Er þá einhver þörf fyrir þessa tillögu? Þurfa hv. þm. Sjálfstfl. samt að vera að flytja tillögu um að efla menntun í framhaldsskólum? Er það vegna þess að frv. ráðherrans sé svona ónýtt? Er það vegna þess að stefnan í því sé svona fjandsamleg starfsmenntun og þá sérstaklega á sviði sjávarútvegs? Eða er það vegna þess að hv. þm. vilja bara sýnast með tillöguflutningi af þessu tagi, gera sig góða gagnvart þessum málaflokki vitandi að það er ekki mikils að vænta af frv. hæstv. ráðherra eða þeirri ríkisstjórn sem þeir eiga að heita stuðningsmenn? Þetta er nú ekki háreistur málflutningur eða málatilbúnaður, hæstv. forseti. Eiginlega er skaði að hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómas Ingi Olrich, sem hér talaði fyrr í dag, --- mun að vísu hafa gætt þess vandlega að minnast ekki á nefnda þáltill., ekki frekar en snöru í hengds manns húsi en er nú flutningsmaður hennar engu að síður ásamt nokkrum flokksbræðrum --- það er skaði að hv. þm. er ekki hér lengur svo hægt sé að spyrja hann um samhengi þessarar tillögu við frumvarpsflutning hæstv. menntmrh.
    Það má auðvitað líka spyrja að því hvort hæstv. menntmrh. sé ekki á miklum villigötum í nálgun sinni á þessum þætti málsins, þ.e. starfsfræðslunámsins. Þá t.d. bendi ég á að frv. gengur út á það að breyta því fyrirkomulagi sem þó er við lýði í gildandi lögum og leggja til að mynda niður fræðsluráð sjávarútvegsins, samstarfsvettvang greinarinnar við menntamálayfirvöld um áherslur og stefnumótun og hvernig það komi inn í starfsnámið í framhaldsskólunum. Í staðinn á að starfa ein samstarfsnefnd um starfsnám sem á að dekka allt landið og miðin. Allar atvinnugreinar og öll svið. Síðan koma þær furðulegu fréttir að ráðuneytið hafi dottið niður á það snjallræði að leggja niður Fiskvinnsluskólann. Það er enn eitt skrefið fram á við sem ráðuneytið ætlar að stíga í þessum starfsfræðslumálum. Þá fer maður náttúrlega að skilja betur að þeir þingmenn telji sig knúna til að flytja hér sérstaka tillögu í nauðvörn fyrir stöðu starfsnáms á sviði sjávarútvegs í framhaldsskólum. Það er kannski vegna þess að þeir sjá að hæstv. menntmrh. er að leggja niður fræðsluráð sjávarútvegsins og hann er að leggja niður Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði. ( Menntmrh.: Hvaðan hefur þingmaðurinn það að ég sé að leggja niður Fiskvinnsluskólann?) Ég veit ekki betur en að þetta hafi komið hér í blöðum fyrir skömmu síðan. ( Menntmrh.: Þetta er bara rugl.) Má þá ekki lengur trúa Morgunblaðinu? ( Menntmrh.: Ekki ef það hefur sagt það.)
    ( Forseti (SalÞ) : Ekki samtal.)
    Þá er nú orðið illt í efni. Við verðum að fá þetta á hreint. Það er gott ef hæstv. ráðherra vill koma hér og staðfesta að það verði ekki hróflað við rekstri Fiskvinnsluskólans, hann verði efldur. Er ráðherra til í að koma hér og staðfesta það? ( Menntmrh.: Auðvitað.) Það er gott þá held ég að hann ætti líka að setja ofan í við Morgunblaðið fyrir þennan fréttaflutning. (Gripið fram í.) Og kannski fjárlagafrv. líka. Maður veit auðvitað ekki hverju maður á að trúa á þessum síðustu og verstu tímum. Kannski þetta sé þá allt meiri og minni misskilningur sem stendur í fjárlagafrv. um að leggja niður þessa og hina starfsemi. Vonandi er það þá líka misskilningur að það eigi að leggja niður embætti héraðslæknanna sem hæstv. menntmrh. ætlar mikið hlutverk í sambandi við heilsuvernd í skólum eins og ég fór hér yfir.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég verð að segja alveg eins og er að það er svo sem ekki vegna þess að þetta frv. gefi tilefni til mikilla ræðuhalda að maður blandar sér inn í þessa umræðu. Það er fyrst og fremst vegna þess að hér er málaflokkur á ferð sem mér finnst að verðskuldi þá athygli þegar hann er á annað borð á dagskrá á Alþingi að menn lýsi viðhorfum sínum til hans. Það sem kom mér sérstaklega til að tala hér var það sem ég kalla stefna í þveröfuga átt í sambandi við skólahald á landsbyggðinni og aðstöðumun þeirra sem búa í strjálbýlinu og þurfa að sækja framhaldsmenntun um langan veg eða senda börn sín um langan veg til framhaldsmenntunar og búa fyrir við ærinn aðstöðumun og í raun og veru illþolandi aðstöðumun. En að því er virðist í því litla sem þess sér stað í þessu frv. þá á að halda í öfuga átt og það er nú harla dapurlegt satt best að segja og er margt dapurlegt í kringum hæstv. menntmrh. þessa dagana.