Framhaldsskólar

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 20:42:53 (1329)


[20:42]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af fyrir sig er kannski ekki miklu að svara í þessu efni. Ég skil hv. þm. þannig að hann hafi fyrst og fremst viljað koma á framfæri vissum ábendingum af því að hann missti af svörum hæstv. ráðherra áðan. En það er alveg rétt hjá hv. þm. að það hefur af einhverjum ástæðum verið mjög erfitt að fá þetta rit, Til nýrrar aldar. Ráðuneytið hefur ekki komið því á framfæri með einum eða öðrum hætti, fólk hefur ekki fengið þetta rit hjá ráðuneytinu og er reyndar ekki eina ritið sem ráðuneytið hefur ekki verið útbært á, t.d. rannsókn á efnahagslegum áhrifum lengingar leikskóla og grunnskóla. Það er skjal sem ekki hefur verið hægt að fá í ráðuneytinu og menn hafa orðið að leita annarra leiða til að leysa það mál. Ég vil að vísu að það komi fram að ég leysti þetta mál með ritið Til nýrrar aldar þannig að ég lét ljósrita það hér í þessari virðulegu stofnun í allstóru upplagi. Það var bundið inn og er enn þá til í nokkrum eintökum. En það er auðvitað makalaust að grundvallarrit af þessu tagi skuli ekki liggja frammi í ráðuneytinu með eðlilegum hætti. Það er alveg ótrúlegt satt að segja og ég tek undir það með hv. þm.