Framhaldsskólar

29. fundur
Þriðjudaginn 08. nóvember 1994, kl. 20:59:58 (1338)


[20:59]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Mér þykir vont að ég skuli ekki ná nægilega skýrt spurningum hv. þm. Ég sé enga ástæðu til að ætla að þessir svokölluðu litlu skólar muni leggjast af. En af sjálfu leiðir að í fámennum skólum verður ekki boðið upp á jafnfjölbreytt nám og hægt er að gera á stærri svæðum eins og t.d. á höfuðborgarsvæðinu eða svo ég taki Eyjafjarðarsvæðið norður í landi.
    Ég held að öllum sé ljóst að framhaldsskólar á hinum fámennari svæðum geta ekki gert þetta. Það er annars vegar kostnaðurinn og hins vegar það sem hefur kannski ekki síður verið ljóst að undanförnu að það eru ákveðin vandkvæði með að fá hæfa kennslukrafta til að kenna við framhaldsskólana víða. Það er allt of algengt, það er allt of mikið um það að kennarar hafi ekki full réttindi við framhaldsskólana og ég tala nú ekki um við framhaldsdeildirnar sums staðar.