Utandagskrárumræður um skuldastöðu heimilanna og skatt á blaðsölubörn

30. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 13:38:48 (1344)


[13:38]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Við erum orðin vön því að eitt helsta tjáningarform þingmanna sé beiðnin um umræðu utan dagskrár eða um störf þings. Menn hafa misjafnar skoðanir á því hversu mikilvægur þáttur í störfum þingsins þetta eigi að vera að öllu jöfnu. En ég man satt að segja ekki eftir frá því að ég kom hingað til þings 1982 að annað eins hafi gerst. Hv. þm., málshefjandi, er búinn að biðja um umræðu um tiltekið málefni, hæstv. félmrh. er mættur, hann er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að ræða málið og ekki stendur á formönnum þingflokka að ræða málið. En hv. þm. kýs að vekja athygli á því að hann fellur sjálfur frá því að ræða málið. Hann er ekki reiðubúinn til þess að ræða málið. En hvers konar vinnubrögð eru þetta? Hér er hæstv. félmrh. Hann er reiðubúinn til þess að ræða málið við hv. þm. og við þingheim en það er dregið til baka af hv. þm., þeim sem upphaflega óskaði eftir þessu. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Síðan er verið að reyna að skjóta sér á bak við það að mál sem beinast að starfsrækslu fyrrv. heilbrrh., núv. félmrh., hafa verið sett í alveg tiltekinn farveg. Hann hefur gert grein fyrir þeim í skýrslu. Sú skýrsla hefur verið send Ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun hefur tekið að sér að fjalla um málið og hún mun skila sinni greinargerð um það mál. Það mál er með öðrum orðum í réttum farvegi og ekkert er um það að segja og það er algerlega óþarfi að reyna að skjóta sér á bak við það eða ala á tortryggni vegna þess. Það mál er í eðlilegum farvegi. Það er ekki félmrh. sem skorast undan því að ræða um vanda og skuldastöðu heimilanna.