Utandagskrárumræður um skuldastöðu heimilanna og skatt á blaðsölubörn

30. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 13:40:41 (1345)


[13:40]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. utanrrh. að það færist nokkuð í vöxt að umræður séu utan dagskrár. En forseti tilkynnti áðan af forsetastóli að hæstv. fjmrh. óskaði eftir að kveða sér hljóðs utan dagskrár síðar í dag vegna umræðna um sérstaka skattlagningu á börn sem selja dagblöð og merki. Forseti tilkynnti jafnframt að aðeins yrðu leyfðar hálftíma umræður um það mál. Ef hæstv. fjmrh. er að koma hingað í þingið til að tilkynna okkur það að hann sé hættur við þá ákvörðun sína að leggja sérstakan skatt á blaðsölubörn og börn og unglinga sem selja merki er sjálfsagt að veita hæstv. fjmrh. svigrúm hér innan dagskrárinnar til þess að tilkynna það, að hann sé hættur við þennan sérstaka barnaskatt sem tekin hefur verið ákvörðun um að innleiða. En ef hæstv. fjmrh. er hins vegar að koma hingað til þess að verja það að leggja þennan sérstaka skatt á börn og unglinga sem selja og bera út blöð og selja merki, virðulegi forseti, rúmast sú umræða ekki innan hálftímans. Ég tel algerlega ógerlegt að tilkynna fyrir fram af forsetastóli að þessi umræða sem fjmrh. óskar eftir með alla þá aðstöðu, sem hann hefur í þjóðfélaginu til að koma sínum málstað á framfæri, sé takmörkuð við hálftíma fyrr en við fáum að vita hvort hæstv. ráðherra er að koma hingað í þingsalinn til að tilkynna að hann sé hættur við skattinn og er sjálfsagt að veita honum þann rétt og fagna því, en ef hann er kominn hingað til þess að verja þessa ákvörðun um barnaskattinn vil ég segja við hæstv. forseta: Það þarf sérstakan fund fulltrúa þingflokka til þess að ræða það hvernig slík umræða fer fram.