Utandagskrárumræður um skuldastöðu heimilanna og skatt á blaðsölubörn

30. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 13:47:40 (1348)


[13:47]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að það eru takmörk fyrir þeim sýningum sem hv. þingmenn geta notað þennan ræðustól til þess að færa upp. Nú er röksemdafærsla hv. þm. Guðna Ágústssonar orðin þessi: Vegna þess að nafngreindir einstaklingar úti í bæ hafa skrifað greinar í Alþýðublaðið undir nafni og gagnrýnt þar hæstv. félmrh., þá er það að ég dreg til baka fyrirspurn mína á Alþingi til hæstv. félmrh. Þetta er einhver frábærasta röksemdafærsla sem ég hef heyrt. Á ég þá að álykta að vegna þess að heyrst hafa um það fréttir að tilteknar ágætar sómakonur hafa sagt sig úr Framsfl. eða viðurkenndir skemmtikraftar hafa verið að segja sig úr Framsfl., veldur það þá því að hv. þm. hefur ekki umboð Framsfl. eða getur hann ekki gegnt störfum sínum á þingi? Hvers konar hundalógik er þetta eiginlega, hv. þm.?