Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 14:41:03 (1359)


[14:41]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það var skaði að ekki skyldi takast að ljúka þessari umræðu í síðustu viku þegar hún var á dagskrá því að samhengi vill rofna nokkuð þegar langt líður í milli umræðna en það spunnust nokkrar umræður um þessa tillögu og ég átti ýmislegt ósagt, m.a. vegna þess hvernig brugðist var við mínum athugasemdum af hálfu hv. flm. Ég var aðallega að leggja áherslu á það að mér fyndist þessi tillöguflutningur vera á skjön við þær framkvæmdareglur, lög og hefðir sem hér hafa viðgengist um framkvæmdir í vegamálum. Það vill nú svo til að það er sennilega óvíða betur og tryggilegar um það búið í löggjöfinni hvernig standa skuli að framkvæmdum í einstökum málaflokkum heldur en einmitt þegar vegamálin eiga í hlut því að vegalög og vinnureglur hér á Alþingi hafa mótast með mjög afdráttarlausum hætti þannig að þar ríkja fastar hefðir. Þessi tillaga sem í raun og veru fjallar um sérstaka vegáætlun í almennum vegaframkvæmdum í einu kjördæmi gengur auðvitað ekki upp í ljósi þeirra reglna sem gilda um framkvæmdir á þessu sviði og eru í grófum dráttum þannig að samkvæmt vegalögum skal vegamálastjóri undirbúa handa samgrh. tillögur um vegáætlun sem ráðherra leggur fyrir þingið og Alþingi fjallar síðan um, ákveður skiptingu framkvæmda niður á einstaka verkþætti og hér er það síðan afgreitt.
    Það var talsvert rætt um það hvort ekki væri fordæmi fyrir því að fluttar væru þingsályktunartillögur um einstakar framkvæmdir, einstakar áherslur í samgöngumálum, og það er út af fyrir sig rétt að menn hafa oft vakið athygli á mikilvægi þess að ráðast í einstakar úrbætur í samgöngumálum með tillögum. ( GHall: Og gleyma þá gjarnan Reykjavík.) Gleyma kannski Reykjavík já, það getur vel verið. Mér skilst að að eigi ekki aldeilis að gleyma henni núna því að allur obbinn af framkvæmdum sem á að ráðast í á næstunni í vegamálum verði hér í Reykjavík. Það er veganesti þingmanna Sjálfstfl. út á landsbyggðina í kosningabaráttuna.
    En það er dálítið ólíku saman að jafna, hæstv. forseti, ef í hlut eiga einstök verkefni í samgöngumálum sem þingmenn vilja vekja athygli á og eru að leggja til að komi inn í undirbúning og stefnumótun og rannsóknir varðandi til að mynda vegstæði og annað því um líkt og hinu að leggja til að gerð verði sjálfstæð framkvæmdaáætlun um almennar vegaframkvæmdir í einu kjördæmi. Það er mjög sérkennilegt og ég leyfði mér að halda því aftur fram, hæstv. forseti, að ef farið yrði út á þá braut gagnvart Austurlandskjördæmi, þá væri í sjálfu sér alveg eins gott að fella niður þau ákvæði vegalaga sem fjalla um vegáætlun og langtímaáætlun og fara bara inn á þá braut að menn gerðu þetta á grundvelli kjördæma og hefðu ekkert heildarskipulag. Og guð hjálpi mönnum þá. Ég fullyrði að fátt hefur þrátt fyrir allt verið gæfulegra í þessum efnum en einmitt sú samstaða og það skipulag og sú langtímastefnumörkun sem í reynd er fólgin í skynsamlegum vinnubrögðum af því tagi sem vegáætlun og langtímaáætlun auðvitað eru. Sama mætti segja um flugmálaáætlun. Ég held að það væri frekar ástæða til þess að reyna að færa framkvæmdir á fleiri sviðum inn á grundvöll slíkra langtímaáætlana og heildstæðrar stefnumótunar fyrir landið þannig að menn væru ekki í skæklatogi um einstakar framkvæmdir milli byggðarlaga. Ég nefni skólamálin sem dæmi. Ég held að okkur væri miklu betur borgið ef framkvæmdir í skólamálum væru á grundvelli áætlana sem væru unnar með landið í heild undir, en það væri ekki þannig, eins og því miður er, að það er kannski kapphlaup og reiptog um fjárveitingar á því sviði sem menn losna við í grófum dráttum með því að vinna þetta á grundvelli áætlana eins og í vegamálum.
    Ég held því fram, bakka ekki með það, hæstv. forseti, að þessi tillöguflutningur er út í loftið og af því að það er mín skoðun þá segi ég hana hér. Ég vil tala hreinskilnislega um þau mál. Ég veit að hv. flm. gengur gott til, að honum er annt um samgöngur í sínu kjördæmi og vill fá þær bættar. En það viljum við bara öll og alls staðar og það er grenjandi þörf fyrir samgöngubætur í öllum kjördæmum landsins, alveg sambærileg og er á Austurlandi. Það er rétt að það bíða gífurleg verkefni á höfuðborgarsvæðinu og það hefur verið ljóst um árabil. Síðasta ríkisstjórn fór í það að gera upp skuldahalann frá því í tíð fyrri ríkisstjórnar við Reykjavíkurborg. Þá skuldaði Reykjavíkurborg yfir milljarð kr. vegna undangenginna framkvæmda á þjóðvegum í þéttbýli. Það þurfti að byrja á að borga þær skuldir áður en hægt væri að gera eitthvað meira. Það er sem betur fer nokkurn veginn búið, þökk sé fyrri ríkisstjórn, ekki þeirri sem nú situr.
    Hér bíða mikil verkefni, það er rétt, en það gerir það líka víðar. Það er til að mynda þannig, ég fullyrði það, að ekki er hægt að halda því fram að ástand vegakerfisins á Austurlandi sé verra eða þar séu menn aftar á merinni almennt séð en t.d. á Vestfjörðum. Hv. flm. ætti þá að keyra Djúpið eða á norðausturleiðinni frá Húsavík til Vopnafjarðar. Hv. þm. ætti að reyna að keyra þá leið núna þegar búin er að vera hláka í nokkra daga og rykbornir malarvegir eru fljótandi í leðju þannig að menn eru í argasta basli við að reyna að halda torfærubifreiðum á vegunum, hvað þá öðru. Vegurinn er ein hola við holu alla leiðina frá Húsavík og austur á Vopnafjörð.
    Það eru gífurleg verkefni af þessu tagi óunnin víða. Hringvegurinn er í sjálfu sér ekkert merkilegri en aðrir vegir sem eru mikilvægir í samgöngulegu tilliti í landinu. Það er ekki hægt að stilla málum þannig upp að bara af því að einhver vegur heitir hringvegur þá fái hann sérmeðhöndlun. Það er ekki svoleiðis. Eiga þá kjördæmi eins og Vestfirðir og að nokkru leyti Vesturland og að nokkru leyti Norðurland eystra sem eru með langar mikilvægar aðalleiðir utan hringvegarins að líða fyrir það að breyttu breytanda? Ég segi nei. Við skulum ekki fara niður á það plan, segi ég, að reyna að nálgast þessi mál þannig.
    Ég held að sá grundvöllur sem er undir stefnumörkun og framkvæmdum í vegamálum sé góður. Ég held að vegalögin séu góð, ég held að framkvæmdaáætlanir í vegamálum séu skynsamlegar og ég held reyndar líka að sú skiptiregla sem viðhöfð hefur verið sé skynsamleg vegna þess að hún tekur mið af umferðarþunga, lengd vegakerfis og öðrum slíkum þáttum sem við verðum að reyna að mæla þegar við erum að ákveða hvernig við verjum vegafé. Ég fullyrði að tillöguflutningur af þessu tagi út í loftið er okkur ekki til framdráttar í þessum efnum ef eitthvað væri gert með hann, sem ég á út af fyrir sig ekki von á að verði, heldur gæti þvert á móti falist í honum skref aftur á bak og hætta á því að það leiddi til aukinnar sundrungar í þessum efnum.