Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 14:56:46 (1363)


[14:56]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er gaman að þekkja sitt heimafólk og ekki sveik hv. þm. Egill Jónsson mig

frekar en endranær. Þegar hann hafði ekki lengur neina málsvörn fram að færa þá fór hann út í útúrsnúningana og fór að reyna að draga það inn í þetta alls óskylda mál að ég væri annaðhvort geðvondur, sem hann má halda eins lengi eins og hann vill mín vegna, eða hitt að ég væri með sérstaklega vonda samvisku yfir því að ég hefði staðið mig illa sem samgrh. fyrr á öldinni. Það verður allt saman vegið og metið að lokum af öðrum en okkur og aðallega því fólki sem hefur notið og mun njóta samgönguframkvæmda og samgöngumannvirkja í landinu. En ég leyfi mér alveg að gera mér sæmilega vonir um það að eftir svona 20--30 ár þegar framlag okkar tveggja, mitt og hv. þm., á sviði samgöngumála verður metið þá fari ég ekki illa út úr þeim samanburði. Ég þori t.d. alveg að leggja í dóm þær áherslur sem við tveir höfum barist fyrir og varða kannski erfiðustu samgönguhindranir í landinu í þeim kjördæmum sem mest hafa átt undir högg að sækja. Ætli það hafi ekki kostað talsverðan pólitískan kjark og þurft áræði til að leggja ýmislegt af því til sem gert var í minni tíð. Ég er ekki viss um að til að mynda tillöguflutningur af þessu tagi muni teljast á spjöldum sögunnar þvílíkt tímamótaafrek í samgöngumálum að jafnvel ekki einu sinni á Austurlandi verði reistar styttur af hv. þm. Agli Jónssyni út á þetta plagg hér.