Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 14:58:29 (1364)


[14:58]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til þess að gera athugasemd við þá fullyrðingu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að því er mátti skilja hann, að hið eina veganesti sem þingmenn Sjálfstfl. hefðu í kosningabaráttuna væri að þeir stæðu nú fyrir miklum framkvæmdum í Reykjavík. Það er að vísu rétt að þessi hugmynd er að taka á sig mynd en hún mun nýtast fleirum en þéttbýlinu á Suðvesturlandi. Ég hygg hins vegar að það væri heldur snubbótt ef menn mætu það svo að þetta væru aðalskilaboð sem þingmenn Sjálfstfl. munu fara með í kosningabaráttuna í samgöngumálum. Þeir munu m.a. geta farið með það í kosningabaráttuna að í kjördæminu sem hv. þm. sjálfur er fulltrúi fyrir, Norðurlandskjördæmi eystra, hefur orðið umbylting í samgöngumálum. Þar hefur verið tekið á mjög brýnum hagsmunamálum Austurlands og Norðurlands með tengingunni við Austurland sem skiptir það kjördæmi og bæði kjördæmin mjög miklu máli og hv. þm. þegar hann var hæstv. samgrh. sinnti ekki og gerði ekki ráð fyrir að yrði tekið á fyrr en á næstu öld. Ég held þess vegna að það verði ekkert spursmál um að við þingmenn Sjálfstfl. getum farið bjartsýnir út í kosningabaráttuna út af samgöngumálum því að þar stöndum við sterkir en þar stendur fyrrv. samgrh. veikur.