Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:00:02 (1365)


[15:00]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þingmenn Sjálfstfl. eru vægast sagt óstyrkir og órólegir ef menn leyfa sér að ræða við þá samgöngumál og sérstaklega ef farið er yfir þau mál eins og þau liggja fyrir. Þá rjúka menn upp eins og hanar eins og hv. þm. Tómas Ingi Olrich og hafa ekki annað fram að færa en útúrsnúning af því tagi sem hann var hér með, að það hafi orðið þvílík kaflaskipti í samgöngumálum á Norðurl. e. til bóta bara við það að hæstv. Halldór Blöndal varð ráðherra að annað eins sé bara óþekkt.
    Ég leyfi mér að minna hv. þm. Tómas Inga Olrich á að til að mynda jarðgöng í gegnum Ólafsfjarðarmúla voru unnin frá upphafi til enda í minni tíð sem samgrh. í Norðurl. e. Ætli það sé ekki þannig að það sé stærsta einstaka verkið í samgöngumálum í því kjördæmi frá upphafi vega? Ætli það ekki? Þannig að ef menn ætla að fara út í einhvern meting af þessu tagi sem er auðvitað svo lágkúrulegur og vitlaus að engu tali tekur þá er ég ekki með. Ég fer ekki í strákakarp við hv. þm. Tómas Inga Olrich um einstaka vegaspotta í Norðurl. e. Það er neðan við mína virðingu.
    Ég held að hv. þm. Tómas Ingi Olrich ætti að hringja nokkur símtöl í Norður-Þingeyjarsýslu eða á Bakkafjörð eða Vopnafjörð þessa dagana og fregna af ástandi norðausturleiðarinnar og hann yrði þá kannski ekki alveg jafnhreykinn af áherslum sínum og hæstv. ráðherra Halldórs Blöndals í samgöngumálum. Ætli það sé ekki þannig að ef einhver staðar er ástand vegar til skammar þá er það auðvitað eins og það er að verða þar. Það er að sjálfsögðu við marga að sakast og þar á meðal mig en að menn séu að hæla sér af miklum kaflaskiptum í samgöngumálum út af einhverjum örstuttum köflum á Mývatnsöræfum eins og það boði einhver algjör tímamót, það er sérkennilegt á meðan 5.500 manna byggð á norðausturleiðinni býr við algjörlega óhæfar samgöngur. Algjörlega. Og bætist auðvitað grátt á svart að núv. hæstv. samgrh. lagði niður Ríkisskip þannig að þessir staðir eru hvað skipasamgöngur snertir komnir 50 ár aftur í tímann. Það koma skip á mánaðarfresti á Raufarhöfn eins og var fyrir meira en 50 árum.