Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:03:36 (1367)


[15:03]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Kaflaskiptin í vegamálum í tíð þessarar ríkisstjórnar eru fyrst og fremst fólgin í því að í fyrsta skipti í sögunni er verulegum hluta framkvæmdanna haldið uppi á grundvelli lántöku og nú er að koma að skuldadögunum. Nú er veislunni lokið og nú er vegafé skorið niður í verulegum mæli og hillir undir afborganir af lánunum sem tekin hafa verið til að halda uppi svipuðu framkvæmdastigi og áður hafði verið. Það eru kaflaskiptin. Það er nýmælið sem þessarar ríkisstjórnar verður væntanlega lengi minnst fyrir. Hún hefur farið út í stórkostlega lántöku og skuldsetningu Vegasjóðs til þess að halda uppi vegaframkvæmdum. Hv. þm. Sjálfstfl. hafa aldrei viljað viðurkenna þetta í umræðunum, talað um mikið afrek og miklar framkvæmdir og allt það. Það er að sönnu rétt, hér hefur verið haldið uppi þokkalegu framkvæmdastigi þó það sé í raun og veru ekki nema rétt svipað og verið hefur þegar tímabilið er tekið í heild, en munurinn er sá, gallinn er sá að það sem miður fer er það að stór hluti af þessu hefur verið tekinn að láni og öðrum ætlað að borga, framtíðinni. Það mun auðvitað koma í ljós.
    Varðandi Ólafsfjarðarmúlann þá er það rétt að það ríkti ágæt samstaða í þingmannahópi Norðurlandskjördæmis eystra fram að þeim tíma að núverandi ráðamenn í þessum efnum og núverandi stjórnarliðar komu inn í þann hóp. Fram að þeim tíma að hæstv. núv. samgrh. Halldór Blöndal tók við því embætti og fram að þeim tíma að hv. þingmenn Tómas Ingi Olrich og Sigbjörn Gunnarsson komu inn í hópinn. Það ríkti mjög góð samstaða í þingmannahópnum Norðurl. e. allan þann tíma sem ég var í honum frá 1983 og þangað til þessi tímamót urðu. Það er rétt að það komi hér fram. Þar á meðal um það að ráðast í Ólafsfjarðarmúlann. En það hins vegar að ganga frá fjármögnun þess verks og leiða það til lykta eru verk fyrrv. samgrh. og reyni hv. þingmenn Sjálfstfl. að þræta fyrir það ef þeir vilja.