Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:13:15 (1371)


[15:13]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hv. síðasti ræðumaður skuli hafa lýst því yfir að hann sé ánægður með framkvæmdir í samgöngumálum. Það er fullkomlega eðlilegt að á samdráttartímum sé gripið til þess að veita lánsfé í framkvæmdir af þessu tagi, um það erum við sammála. Það er hins vegar ekki eðlilegt að grípa til þess á tímum þegar ekki er samdráttur að veita lánsfé inn í fyrirtækin og fresta því að það sé tekið á vandræðum. En það var einmitt slík lántaka sem fór fram í tíð fyrri ríkisstjórnar og hefur reynst illa, hv. þm. Um það getum við verið sammála líka hygg ég.
    Það er einnig ljóst að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur gert meira fyrir atvinnulífið heldur en nokkur ríkisstjórn hefur gert í vaxtamálum og með því að stuðla að jafnvægi í þjóðfélaginu og viðskiptajöfnuði sem er nú sýnilega í þriðja skiptið í röð jákvæður en hefur ekki á sl. 20 árum verið jákvæður nema tvisvar sinnum.