Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:30:31 (1377)


[15:30]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég trúði því nú ekki, enda kom í ljós að svo var ekki, að hv. þm. yrði fótaskortur á tungunni ef hann færi að vonast eftir því hér í ræðustól að Framsfl. mundi e.t.v. mynda ríkisstjórn með Sjálfstfl. því mér heyrðist á fyrsta manninum þar eystra að hann hafi annað í hyggju í þeim efnum. Það er auðvitað mikil spurning hvað við höfum mikið fé til vegamála og samgöngumála. Það vekur athygli þegar maður horfir á vegáætlun nú borið saman við það sem áður var að neðsti liðurinn í sambandi við skiptingu útgjalda til flóabáta 330 millj., 551 millj., 569 millj., 555 millj. Þarna er samgöngumálaþáttur ríkisfjármála að standa undir alveg gengdarlausum skuldum sem var efnt til án forsjár þegar hver flóabáturinn af öðrum var keyptur til landsins án þess að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar setti svo sem eina einustu krónu á fjárlög upp í kaupverðið eða smíðaverðið, ekki eina einustu krónu. Það kemur í hlut seinni tíma manna að greiða þetta. Og m.a. sú þrenging á vegafénu sem verður af þessum sökum veldur því að það er ekki eins rúmt um og ella mundi. Ég vil líka vekja athygli á því sem er eftirtektarvert að hver stjórnarandstæðingurinn á fætur öðrum lýsir því nú yfir gagnstætt t.d. aðilum vinnumarkaðarins að það sé varhugavert að leggja út í meiri framkvæmdir, meiri vegagerð en ella án þess að auka skattheimtuna, á þeim tíma sem við lifum nú þegar lífskjör hafa versnað og atvinna dregist saman. Á þeim tíma sem við erum að byggja atvinnulífið upp á nýjan leik er ekki óeðlilegt að við leggjum á samgönguþáttinn þó svo að það kosti í bili að við verðum að taka nokkur lán í augnablikinu.