Vegaframkvæmdir á Austurlandi

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:35:03 (1380)


[15:35]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Hæstv. samgrh. gleymir því í þessum flóabátaræðum sínum að það var hann, hæstv. núv. samgrh., sem tók þetta verkefni bótalaust yfir á Vegasjóð. Það er þess vegna hæstv. núv. samgrh. sem ber pólitíska ábyrgð á því að hafa skert ráðstöfunartekjur Vegagerðarinnar um hálfan milljarð, með því að vera svo mjúkur í hnjáliðunum gagnvart hæstv. fjmrh. að sætta sig við að taka þetta verkefni bótalaust yfir á Vegasjóð og skerða sem því nemur ráðstöfunartekjur hans. Það er vandamálið. Það er ístöðuleysi og baráttuleysi hæstv. núv. samgrh. í þessu en ekki hitt að menn réðust til löngu tímabærrar endurnýjunar t.d. á Herjólfi. Ég hefði gaman af að sjá hæstv. samgrh. fara í framboð í Vestmannaeyjum einhvern tímann og reyna að afla þar fylgis eftir þann fjandskaparáróður sem hann hefur rekið gegn Vestmannaeyingum og endurnýjun Herjólfs.
    Annars er það þannig, hæstv. forseti, að útúrsnúningar hæstv. ráðherra hér um alls óskylda tillögu eru ekki svaraverðir og það er nær að ræða það mál þegar sú tillaga kemur á dagskrá, sem verður innan skamms. Auðvitað er það þannig að tillöguflutningur hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og mín um undirbúningsrannsóknir og val á vegarstæði og stefnumótun er allt annar hlutur en það sem hér er á dagskrá, almenn vegáætlun fyrir Austurland. Auðvitað er furðulegt að heyra hæstv. samgrh. svona metnaðarlausan sem yfirmann vegamála og sem vegalög heyra undir, mæla bót tillöguflutningi af þessu tagi, um að taka almennar vegaframkvæmdir í einu kjördæmi út fyrir sviga og veita þeim einhverja sérstaka meðhöndlun. Það er auðvitað ótrúlegt metnaðarleysi í einum hæstv. samgrh. að láta menn komast upp með slíkt í sínum flokki, en hæstv. ráðherra er ýmsu vanur, samanber líka það að hæstv. forsrh. hefur nú sett hann af og sjálfur tekið við sem samgrh. höfuðborgarsvæðisins.