Skattlagning tekna blaðsölubarna o.fl.

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 15:51:36 (1387)


[15:51]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu í gær og í dag og hef gert ráðstafanir til þess að efh.- og viðskn. geti fjallað um málið á reglulegum fundi sínum í fyrramálið og farið þá yfir þann lagagrunn sem stendur að baki þessa máls og fengið fulltrúa frá ríkisskattstjóra á fundinn. En ég mun sjálfsagt bera það undir nefndarmenn í upphafi fundar í fyrramálið hvort það sé ekki almennur vilji til að það sé gert en ég hef gert þær ráðstafanir.
    Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þessi umræða eilítið sérstök. Eftir því sem ég hef getað kynnt mér lögin þá ber að greiða 6%, þ.e. 4% tekjuskatt og 2% útsvar af tekjum barna undir 16 ára aldri og engar undanþágur eru í lögunum frá þessu. Ég get sagt það hér að ég hef margoft á umliðnum árum greitt börnum og unglingum innan 16 ára aldurs fyrir ígripavinnu líkt og að bera út blöð sem hafa

verið þeirrar vasapeningar og dregið af því samviskusamlega 6% skatt. Haft um það fyrirmæli frá skattyfirvöldum. En það sem mér finnst kannski sérstakt í þessu máli er það að þegar þetta kemur upp núna og ég tek undir að það er ekki eðlilegt að slíkar tekjur sem nema smáum upphæðum hjá börnum séu skattlagðar. Ég tek undir það sjónarmið. Þess vegna finnst mér fjmrh. í dag ekki bregðast rétt við. Fjmrh. bregst við á þann hátt að fyrirskipa að lögunum sé framfylgt út í ystu æsar og e.t.v. á hæstv. fjmrh. enga aðra leið ef ríkisskattstjóri fer fram á að svo sé gert, en e.t.v. sagði ég. Ég tel að hæstv. fjmrh. hann eigi aðra leið. Hæstv. fjmrh. á þá leið að beita sér fyrir því að lögum sé breytt og það séu fundnar og Alþingi setji eðlilegar leikreglur sem gangi út á það að eðlilegar tekjur barna sem hægt er að flokka undir það að vera eingöngu vasapeningar séu ekki skattlagðar. Ég tel það fullvíst að Alþingi muni taka vel undir þetta og hraða slíkri breytingu á lögum þannig að það mætti gerast samhliða þeim breytingum sem vissulega þarf að gera á skattalögum á hverju ári.
    Það er þetta, virðulegur forseti, sem mér finnst nú kannski vera punkturinn í málinu. Ég held að við þurfum að taka á þessu út frá þeirri forsendu að það er almenn venja hér á landi og ég tel það hafa gott uppeldislegt gildi að börn og unglingar vinni sér inn einhverjar tekjur með viðvikum eins og að bera út blöð eða selja merki eða hvað eina annað. Ég geri engan greinarmun á því hvort viðkomandi börn eru að vinna sér inn þessa smáaura með því að bera út blöð eða hvort viðkomandi barn eða unglingur hleypur í íhlaupavinnu í tíu daga eða hálfan mánuð við að taka upp kartöflur eða vinna í frystihúsi. Út frá þessu sjónarmiði vil ég að sé tekið á málinu.