Tilhögun utandagsskrárumræðu

31. fundur
Miðvikudaginn 09. nóvember 1994, kl. 16:14:20 (1396)


[16:14]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að blanda mér í þessar umræður um þessa furðulegu utandagskrárumræðu. Ég skildi það þannig í dag að hæstv. fjmrh. ætlaði að gefa út einhverja yfirlýsingu um eigin gerðir eða áætlanir og hafði vonast til þess að ráðherrann tilkynnti að hann mundi beita sér fyrir lagasetningu til þess að hægt væri að halda þeirri framkvæmd sem verið hefur fram að þessu og þá hugsanlega, eins og ég sagði, að útvíkka það eitthvað frekar.
    Virðulegi forseti. Ég vil benda á varðandi framkvæmd þessarar umræðu að mín túlkun á því þegar samið er um tíma á flokk þá sé það gert til þess að tryggja þeim flokki lágmarkstíma. Í þessu tilfelli að tryggja hverjum flokki sínar sex mínútur. Það gerðist hins vegar að þegar allir sem kvöddu sér hljóðs voru búnir að tala var einn hv. þm. eftir á mælendaskrá og það var eftir af þeim hálftíma sem búið var að tilkynna að umræðan átti að standa. Í slíku tilfelli átti að mínu mati viðkomandi þingmaður skýlausan rétt á að fá að taka þátt í umræðunni og nota þá tvær mínútur eins og almennt gildir um styttri umræður utan dagskrár.